„Hjónaband kostar mikla þolinmæði og skilning“

Marentza Poulsen er 71 árs.
Marentza Poulsen er 71 árs. mbl.is/Árni Sæberg

Marentza Poulsen er fædd og uppalin í Færeyjum en flutti til Íslands árið 1964, þá fjórtán ára að aldri, með foreldrum sínum og systkinum. Hún er á besta aldri að eigin sögn, býr til góðan mat, dansar og leikur sér og hefur ánægju af vinnunni og nýtur þess að vera til.

„Ég bjó í litlu þorpi í Færeyjum þar sem allir þekktu alla. Krakkarnir léku sér mikið saman og foreldrarnir voru með sjálfsþurftarbúskap þar sem allt var gert frá grunni lífrænt. Lífið snerist um skepnurnar og afurðirnar. Ég var því alin upp á hreinu fæði sem ég tel að hafi gert mér gott í upphafi lífsins.“

Að flytja úr litlu þorpi til Reykjavíkur var framandi en einstaklega lærdómsríkt ferli að hennar sögn.

„Við fluttum nálægt Reykjavíkurflugvelli en á þessum tíma hafði ég nánast aldrei séð flugvél. Við sigldum frá Færeyjum til Íslands með Dronning Alexandrine á sínum tíma sem var millilandaferja. Ástæðan fyrir flutningi okkar var sú að pabbi var sjómaður sem hafði verið meira og minna að sigla frá Íslandi frá árinu 1952. Hann var vélstjóri og eldri bræður mínir fóru kornungir með honum á sjó eins og tíðkaðist á þessum tíma.“

Konurnar stóðu vaktina heima

Á meðan karlarnir í fjölskyldunni stunduðu sjómennsku voru konurnar í landi og tóku ábyrgð á flestu því sem viðkom heimilinu.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat. Ég er smurbrauðsjómfrú að mennt og veit fátt skemmtilegra en að gera fallegt og bragðgott brauðmeti. Ég hef fengið að sjá um matinn heima að mestu leyti, allavega núorðið.“

Í sumar eru að verða 25 ár frá því hún tók við rekstri veitingahússins Flóru bistró í Grasagarðinum í Reykjavík. Eins hefur hún rekið veitingahúsið Klambra bistró á Kjarvalsstöðum undanfarin sjö ár.

„Ég kann að meta að vinna og hef aldrei haft þörf fyrir að hætta því þrátt fyrir að vera orðin 71 árs. Ég er eins upplögð núna í að vinna og ég var fyrir tíu árum. Ég er svo lánsöm að hafa brennandi áhuga á því sem ég starfa við.“

Hverju er það að þakka?

„Ég er við góða heilsu og ég er ekki löt. Ég er í eðli mínu með gott skap, það er nokkuð sem ég fékk í vöggugjöf, svo er ég forvitin um lífið og kann að meta allar þær áskoranir og verkefni sem finna má í hversdagslífinu. Ég hugsa að þessir eiginleikar nýtist mér vel bæði í lífi og starfi.“

Marentza lítur ekki á matargerð sem mikla áskorun, heldur meira það sem fylgir því að vera með eigin rekstur. Mannauðsmálin geta sem dæmi stundum verið flókin.

„Ég elska að gera mat og sjá um veislur, hvort heldur sem er fermingarveislur, brúðkaupsveislur eða afmæli. Að fá að taka þátt í gleðidegi fólks, að fá að vinna og skapa eitthvað alveg einstakt hefur lengi verið áhugamálið mitt.“

Fjölskyldan skiptir alltaf mestu máli

Þótt Marentza vinni mikið og hafi alltaf gert þá notar hún öll möguleg tækifæri til þess að eiga stundir með fjölskyldunni.

„Ég á eiginmann sem ég hef verið með lengi. Saman eigum við tvö börn og fjögur barnabörn. Það jafnast fátt á við það að vera með fjölskyldunni, en það er eins með þetta og annað; maður þarf að leggja rækt við fjölskylduna svo hún vaxi og dafni.“

Marentza trúir því að ef hjón eða pör eru vinir, þá geti þau komist í gegnum nánast hvað sem er saman.

„Hjónaband kostar mikla þolinmæði og skilning. Til að hjónaband virki til lengri tíma þurfa hjón að geta talað saman um það sem vel gengur en einnig um það sem er erfitt. Við hjónin erum mjög ólík í eðli okkar en við vegum hvort annað upp. Maðurinn minn er afslappaður en ég er aðeins meira nákvæm. Hann er náttúrubarn og ég er borgarbarn, en við höfum lifað saman í sátt og samlyndi og aðeins í heimum hvort annars líka.“

Hún trúir því að lengi búi að fyrstu gerð og að árin sem þau áttu saman fyrst séu grunnurinn sem þau hafa byggt ofan á.

„Það var svo gaman fyrstu árin okkar saman. Við dönsuðum mikið og tengdust í gegnum alls konar skemmtilega hluti sem við höfum nú verið að taka upp aftur eftir að börnin fóru að heiman. Það reyndi alveg aðeins á að læra að vera tvö saman aftur, en okkur hefur tekist ágætlega að rækta sambandið í gegnum þessa snertifleti sem við fundum strax í upphafi.“

Hvaða ráð áttu fyrir ungt fólk sem er að feta sín fyrstu skref í samböndum?

„Það skiptir máli að vera tillitssamur og heiðarlegur og umfram allt annað að vera forvitinn um hvort annað og sýna gagnkvæma virðingu. Það sem dró okkur hjónin saman í byrjun er að við elskuðum að dansa, syngja og njóta lífsins saman. Lífið varð skemmtilegra þegar við vorum saman. Það getur verið ágætur mælikvarði á heilbrigði sambanda. Það sem hefur einnig hjálpað okkur hvað mest í lífinu er að við höfum ekki gert svo miklar kröfur til lífsins. Hvað mig varðar, í einkalífi og í starfi, hefur það hjálpað til að ég hef ekki viljað vera að gera neitt annað en ég er að gera hverju sinni. Það eru þröskuldar hjá öllum, maður þarf bara að læra að stíga yfir þá. Ég hef aldrei verið fljótfær, heldur viljað rækta mig og sambandið mitt. Ég hef tileinkað mér að sjá það góða í öðrum, við höfum öll eitthvað gott og jákvætt í okkur. Svo er bara spurning hvað við veljum að sjá og setja athyglina á.“

Hefur alltaf verið sjálfstæð

Hvað með heilsuna? Hvað hefurðu gert til að viðhalda henni?

„Ég hef alltaf verið einstaklega lánsöm þegar heilsan er annars vegar. Ég hef alltaf verið frísk og einhverra hluta vegna alltaf verið með góðan líkama, svo sigli ég í gegnum lífið á jákvæðninni. Ég elska góðan mat en borða ekki meira af honum en ég þarf. Ég elska líka góð vín og drekk þau þegar mig langar til þess. Ég vinn við að hlaupa eða hef stundum sagt að ég sé á launum við að hlaupa, en þannig er vinnan mín. Ég hef því komist upp með að fara sjaldan í ræktina.

Ég er þó með eitt ráð sem ég get mælt með fyrir alla. Það er að hafa stöng fyrir ofan hurðina í svefnherberginu. Á henni hangi ég og teygi úr mér. Það tekur þreytuna úr bakinu á mér að hanga eins og köttur á stönginni á morgnana, þetta hef ég hef alltaf gert og held að fleiri ættu að tileinka sér. Ég hef trú á því að teygjur skipti miklu máli, ekki síst upp á bakið að gera. Eins hef ég aldrei verið í neinni yfirþyngd, sem hjálpar mér mikið.“

Það sem vekur athygli við Marentzu er að hún hefur allt sitt líf verið sjálfstæð kona.

„Það er það sem einkennir hjónaband okkar, þetta sjálfstæði okkar beggja. Hörður er alinn upp við að pabbi hans vann til jafns á við mömmu hans heima fyrir og því hefur maðurinn minn alltaf tekið virkan þátt í heimilisstörfunum. Þótt ég sé svolítið frek á að elda matinn heima, þá gengur hann frá eftir matinn. Það sama má segja um að afla tekna. Þar hef ég alltaf tekið virkan þátt.“

Hver eru bestu ár ævinnar að þínu mati?

„Það er góð spurning. Ég hef stundum verið að hugsa um þetta. Árin á milli þrítugs og fertugs voru mjög skemmtileg ár, þá var maður enn þá ungur og ferskur og krakkarnir farnir að bjarga sér töluvert og ekki eins háð manni. Svo var æðislegt að vera á milli fimmtugs og sextugt líka.“

Gott skap gerir matinn betri

Hvað er að gerast á þeim aldri?

„Þá voru krakkarnir að fara að heiman, við urðum ein kærustuparið og þá verður maður allur frjálsari til að ferðast og skemmta sér.“

Þótt Marentza njóti þess meira en margir á hennar aldri að vera í vinnunni er hún á því að með auknum þroska komi öðruvísi hugmyndir um heimilið og þann griðastað sem það getur verið.

„Mér hefur alltaf þótt vænt um heimili mitt en hef sjaldan upplifað mig jafn heimakæra og ég er núna. Ég nýt þess að vera heima hjá mér og hef einstaklega gaman af því að gera fallegt í kringum mig þar. Eins finn ég hvað börnin og barnabörnin hafa gaman af því að koma heim. Þegar heimilið fyllist þá fyllist hjartað af hamingju.“

Marentza er þekkt fyrir að vera með einstakan fatastíl. Hún er óhrædd við að klæðast litum og fatnaði frá alls konar tímabilum.

„Ég er litaglöð kona í eðli mínu og hef alltaf haft áhuga á tískunni. Ég er mikil kjólakona og hef gaman af því að vera litrík og með skemmtilega skartgripi.“

Að lokum er áhugavert að fá lánaða dómgreind hjá henni um hvernig hægt er að efla færni sína í eldhúsinu.

„Besta ráðið sem ég kann er að prófa sig áfram, nýta styrkleikana sína og gera bara það sem manni finnst gaman að gera. Ég er mjög mikið fyrir að prófa mig áfram með nýja rétti, það eina sem gott er að hafa í huga er að hráefnið passi saman svo maturinn bragðist vel. Fyrir þá sem eru ekki vanir að elda er gott að hafa í huga að til eru dásamlegar matreiðslubækur auk ýmiskonar efnis á netinu sem gott er að grúska í. Að lokum má ekki gleyma að minnast á að ef maður er glaður þá verður maturinn góður, en ef maður er illa upplagður þá er alltaf gott ráð að halda sig frá eldhúsinu.“

Marentza Poulsen prýðir sérblað Morgunblaðsins, Á besta aldri.
Marentza Poulsen prýðir sérblað Morgunblaðsins, Á besta aldri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »