„Áður en ég kynntist honum var ég byrjuð að strippa“

Renata Sara Arnórsdóttir.
Renata Sara Arnórsdóttir.

Renata Sara Arnórsdóttir er 23 ára stelpa úr Breiðholti sem hefur reynt margt þótt hún sé ekki mjög gömul. Hún er nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpinu Sterk saman. 

Renata segir að hún hafi verið kvíðið barn sem átti erfitt með breytingar.

„Í seinni tíð hef ég hugsað hvort ég gæti verið einhverf því ég á erfitt með allskonar svona breytingar og félagsleg tengsl en þegar ég er búin að venjast er það allt í lagi,“ segir hún. 

Skólaganga Renötu gekk ekki vel vegna mikils eineltis en fyrstu fjóra bekkina gekk hún í Ísaksskóla en þaðan lá leiðin í Seljaskóla. 5. bekkur var besta árið hennar í skóla, þá átti hún vini og gekk vel en eftir það fór allt aftur niður á við og einelti og ofbeldi byrjaði. Strákar í skólanum beittu miklu ofbeldi og þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir frá móður Renötu gerðist lítið sem ekkert og sagt „strákar eru og verða strákar“. Renata upplifði skólann ekki góðan stað og fannst hún hvergi passa inn. Hún æfði ballett af krafti í 15 ár en passaði heldur ekki inn þar.

„Ég var ekki með rétta líkamann í ballett. Þegar ég var unglingur fékk ég sérstakan teygjuþjálfara sem kom og teygði á mér með því að setjast ofan á mig og svoleiðis í klukkutíma í einu, þrisvar í viku.“

Eftir að hafa klárað grunnskóla fór Renata til New York í ballettskóla. Þar bjó hún bæði hjá kristinni fjölskyldu þar sem ofbeldi var beitt og einnig á heimavist hjá kaþólskum nunnum. Á þessum tíma hafði hún þróað með sér átröskun en frá því hún man eftir sér var því ýtt að henni að létta sig. 

„Mamma hefur verið í megrun síðan ég man eftir mér og það er til dæmis ein svona core-minning þar sem ég kom mjög svöng af æfingu og sagði mömmu það og hún svaraði með því að segja mér að þannig myndi ég grennast. Auðvitað sitja svona komment í börnum,“ segir Renata og bætir við að hún eigi of margar slíkar minningar sem foreldrar hennar könnuðust ekki við þegar hún fór að vinna sína sjálfsvinnu heldur var hún sögð of viðkvæm.

Leið Renötu lá til Berlínar ásamt vinkonu. Þar átti ævintýri hennar eftir að breytast í hálfgerða martröð en stuttu eftir að þær fluttu út kynntist Renata manni sem reyndist vera mikill ofbeldismaður. 

„Áður en ég kynntist honum var ég byrjuð að strippa en hann taldi mér trú um að hann hefði mína hagsmuni í huga og lét mig hætta. Hægt og rólega ágerðist stjórnsemin, eitt leiddi af öðru og þetta samband einkenndist af andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.“

Á einum tímapunkti leitaði Renata til sálfræðings sem bæði hjálpaði henni að sjá ofbeldið og búa til flóttaplan. Flókin áfallastreita fylgir oftast í kjölfar slíks ofbeldis og lifði hún í miklum ótta í langan tíma. 

Rauða regnhlífin eru hagsmunasamtök kynlífsverkafólks og er Renata þar fremst í flokki að berjast gegn fordómum. 

„Þetta eru regnhlífarsamtök og kynlífsverkafólk er regnhlífarhugtak yfir svo margt. Það er hægt að tala við fólk í þessum geira og fá upplýsingar. Ekki ákveða fyrirfram. Versta sem ég hef verið kölluð er lobby fyrir pimp eða ég sé pimp, ef ég væri pimp vildi ég líklega ekki réttindi fyrir kynlífsverkafólk, er það,“ spyr hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál