Instagram Guðrúnar Veigu hakkað

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir áhrifavaldur missti Instagram og Facebook-reikninga sína hinn …
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir áhrifavaldur missti Instagram og Facebook-reikninga sína hinn 21. október síðastliðinn.

Um 30 þúsund manns hafa kannski tekið eftir því en áhrifavaldurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, betur þekkt undir notendanafninu gveiga85, hefur ekki deilt neinu með fylgjendum sínum síðan fimmtudaginn 20. október. Guðrún er ekki í sjálfskipaðri pásu frá Instagram heldur var reikningur hennar hakkaður og hún læst úti frá Instagram og Facebook. 

Að missa reikninginn sinn á samfélagsmiðlum hefur verið gríðarlega erfitt fyrir hana, enda er hún áhrifavaldur og hefur tekjur sínar af samfélagsmiðlunum. Í samtali við Smartland segir Guðrún að hana hrylli við tilhugsuninni um að „þurfa að byrja upp á nýtt“ enda hefur hún eytt fjölda ára í að byggja upp fylgjendahóp sinn. 

„Hættið öllu sem þið eruð að gera, það er búið að hakka Instagramið mitt,“ eru skilaboðin sem nánasta fólk Guðrúnar Veigu vaknaði við á föstudagsmorgninum 21. október. Skilaboðin þurfti hún að senda með sms-i, en við það að missa reikningana fór hún 15 ár aftur í tímann í samskiptaleiðum. 

„Heilastarfsemi mín er ekki upp á fjölmarga fiska þegar ég verð stressuð, kvíðin og snarbrjáluð. Þannig að ég fór rakleiðis í að hafa samband við það fólk sem stendur mér næst þegar Instagram er annars vegar en Swipe Media sér um öll mín samfélagsmiðlamál. Þau hafa verið með alla anga úti í að leita lausna við þessu bölvaða brasi – ásamt því að hlusta á misjafnlega svartsýnt rausið í mér um þetta allt saman. Eiga eiginlega hrós skilið af því ég get verið alveg rosalega leiðinlegur einstaklingur þegar ég legg mig fram við það,“ segir Guðrún Veiga sem segir öran hjartslátt og svitamyndun á rasskinnum og baki hafi verið einkennismerki morgunsins.

Ekki þekktur hakkari

Án árangurs hefur hún reynt að endurheimta reikningana sína en hún segir þá ekki vera í höndum einhvers þekkts hakkara. Á síðasta ári lenti fjöldi íslenskra áhrifavalda í því að reikningar þeirra voru teknir af þeim. Hakkarinn alræmdi reyndi svo að hafa fé af áhrifavöldunum og sagðist mundu skila reikningunum ef þeir legðu ákveðna upphæð inn á hann. 

„Heldur lítur út fyrir að einhver hafi tilkynnt mig margoft fyrir brot á siðareglum Facebook/Instagram sem leiðir svo til þess að öllu er skellt í lás. Eða mögulega póstað einhverju ógeðfelldu í mínu nafni, það voru gerðar tilraunir til þess að komast inn á Facebook-ið mitt áður en mér var grýtt út á gaddinn,“ segir Guðrún Veiga. 

Engin hjálp frá Meta 

Meta er móðurfyrirtæki samfélagsmiðlanna tveggja Instagram og Facebook. Guðrún Veiga hefur enga hjálp fengið þaðan og segir hálfkómískt hversu erfitt sé að reyna hafa samband við einhvern þar.

„Guð á himnum sko, ég hélt það væri erfitt að ná í mig (af því ég svara aldrei í síma og gleymi öllum skilaboðum sem ég fæ) en ég hef nú aldeilis fengið að bragða á eigin meðulum núna. Það er í raun ekki nokkur leið að komast í beint samband við einhvern hjá þessu fyrirtæki án þess að þekkja einhvern, sem þekkir einhvern, sem þekkir einhvern, sem kannast við einhvern sem vinnur hjá Facebook,“ segir Guðrún Veiga. 

Spurð hvernig síðustu dagar án Instagram hafa verið segir hún að 99,7% tímans hafi verið ömurlegur, en eftirstandandi 0,3% hafi verið ákveðin og nauðsynleg hreinsun. 

„Auðvitað er algjör martröð að láta kippa svona undan sér fótunum þegar lífsviðurværi manns er annars vegar, get ekkert lýst þeirri tilfinningu neitt. En ég komst nú nokkuð hratt að því að ég eyði bersýnilega alltof miklum tíma í tilgangslaust skroll yfir þessa miðla - vissi varla hvað ég átti að gera við hendurnar á mér þarna fyrst um sinn,“ segir Guðrún Veiga. 

Gæti haft áhrif á samninga

Guðrún Veiga er í samstarfi við fjölda fyrirtækja sem öll hafa sýnt ástandinu mikinn skilning. Hún segir þó að hennar fyrstu viðbrögð hafi verið áhyggjur af því að öll hennar vinna síðustu ár væri horfin með öllu. 

„Ég veit hins vegar ekki hvort það tekst eða hversu langan tíma það mun taka að endurheimta reikninginn – þannig að auðvitað gæti alveg farið svo að þetta muni hafa áhrif á mína samninga. Ég komst að vísu að því fyrir viku síðan að enn leynist glás af fólki inni á Snapchat hjá mér, þar sem þetta samfélagsmiðlabras mitt hófst allt saman. Ég hef verið að nota það aðeins í þessu millibilsástandi og hugsa að ég haldi því bara áfram. Fólk má nú ekki gleyma mér, almáttugur minn,“ segir Guðrún Veiga. 

Spurð hvort það myndi hafa fjárhagslegar afleiðingar fyrir hana ef hún þyrfti að byrja upp á nýtt segir Guðrún Veiga að tíminn verði að leiða það í ljós. 

„Að byrja upp á nýtt er setning sem ég hef heyrt óþarflega oft síðustu daga og ég veit ekki hvort mig langar að gubba eða fara að skæla þegar ég heyri þetta. Eða bara hvort tveggja. Ég er búin að leggja allt mitt í þennan Instagram-aðgang síðustu sex árin. Eða átta árin, ég er löngu hætt að telja. Leggja allt mitt í að búa til efni. Allt mitt í að gera þetta skemmtilegt (þó ég sé reyndar stundum skælandi og allt í mínus). Allt mitt í að gera þetta að atvinnu. Það væri bölvað svekkelsi að þurfa að byrja upp á nýtt. En að sama skapi ætla ég heldur ekkert að láta eitthvert gerpi bola mér út af sjónarsviðinu. Hvað fjárhagslegar afleiðingar varðar verður tíminn einfaldlega að leiða það í ljós, ég ætla að leyfa mér að trúa að þeir sem hafa fylgt mér hingað til og haft gaman af muni gera það áfram - sama hvar ég verð,“ segir Guðrún Veiga. 

Guðrún Veiga segist þiggja alla hjálp sem býðst við að endurheimta reikningana og býður dagsferð til Vestmannaeyja í staðinn. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda