Syrgir dóttur sína sem dó í höndunum á lögreglunni

Guðrún Haraldsdóttir er móðir Heklu Lindar sem lést 2019.
Guðrún Haraldsdóttir er móðir Heklu Lindar sem lést 2019.

Guðrún Haraldsdóttir er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman. Hún hefur upplifað meira en margir aðrir. Í þættinum segir hún frá því þegar Hekla Lind, dóttir hennar, lést í hönunum á lögreglunni 9. apríl 2019. Þá var Hekla Lind 25 ára. 

„Hekla Lind var opin, hress og skemmtileg stelpa sem alltaf var gaman að hafa í kringum sig,“ segir Guðrún.

„Hún var dugleg, félagslind og tók allt með trompi. Unglingsárin voru góð, þær vinkonur voru algjörar prímadonnur en aldrei vesen á þeim. 18 ára gömul tók Hekla þátt í fitness og hafði það ekki góð áhrif á hana. Hún breyttist eitthvað við það. Hún tók þetta með trompi eins og annað og var hún í fitnessformi í fjögur ár. Hún þjáðist af átröskun og mikilli þráhyggju. Hún varð hortug eða reið,“ segir Guðrún. 

Þær mæðgur voru ofboðslega líkar og nánar.

„Ég tók ekki eftir því að hún sé farin að gera neitt fyrr en hún er orðin 21 árs.“

Á stuttum tíma var Hekla komin í dagneyslu róandi lyfja sem hún fékk uppáskrifað hjá læknum.

„Neyslan ágerðist og ég fór að vakna upp á nóttunni þar sem hún var að reka út fólk og pöddur sem voru ekki á staðnum.“

Hekla fór í meðferð á Krýsuvík og var þar í sex mánuði. Hún var búin að vera edrú í átta mánuði þegar hún fór út á land að hitta strák. 

„Ég bað hana að fara ekki ef hún væri stressuð en hún fór og sendi mér myndir alla helgina, voða gaman. Hún kom heim heim á sunnudagskvöldi og hafði fallið þessa helgi og komið í bæinn með efni fyrir þennan strák. Eftir þetta var ekki aftur snúið og hún fór að sprauta sig.“

Guðrúnu þykir vænt um að Hekla hafi treyst sér fyrir því sem hún gekk í gegnum og þykir vænt um samtölin þeirra þó hún reyni að muna frekar góðu tímana. Hekla reyndi ýmislegt til að verða edrú en ekkert gekk. 

Þegar talið berst að kvöldinu örlagaríka segir Guðrún að hafi verið sársaukafullt. 

„Ég þekkti númerið hjá spítalanum og læknirinn sem hringdi sagði, ég er með slæmar og góðar fréttir. Slæmu eru að Hekla fékk hjartastopp en góðu eru að það gerðist í höndum lögreglu. Þarna er hún dáin en það kom aldrei upp í huga minn vegna þess sem læknirinn sagði. Hún dó klukkan þrjú um nóttina í höndunum á lögreglu í garðinum á Skeggjagötunni en ekki klukkan ellefu um morguninn, þá var vélin bara tekin úr sambandi.“

Til að byrja með var hringt á sjúkrabíl í fjögur skipti en sá sem svaraði símanum sendi einungis lögreglu, sem kallaði ekki til sjúkrabíl fyrr en Hekla hafði misst lífsmörk í garðinum.

„Svörin sem við höfum fengið eru að það hafa verið notast við viðurkenndar aðferðir en þarf ekki að lesa í aðstæður? Það er ekki eðlilegt að 130 kg karlmaður og 110 kg karlmaður leggist með hnén í bakið á lítilli konu sem bundin er á höndum og taka frá henni lífið og kæfa hana á stuttum tíma.“

Foreldrar Heklu eru um þessar mundir að höfða mál gegn ríkinu til þess að fá viðurkennt að einhver beri ábyrgð á dauða Heklu Lindar.

„Ef Jón Jónsson hefði gert þetta niðri í bæ væri hann í fangelsi.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál