Hefur myndað fyrir Chanel og Dior

Kári er einn af okkar fremstu tískuljósmyndurum um þessar mundir.
Kári er einn af okkar fremstu tískuljósmyndurum um þessar mundir. Ljósmynd/Kári Sverris

Kári Sverrisson ljósmyndari nýtur velgengni í fagi sínu víðsvegar um heiminn. Hann skrifaði nýverið undir samning við eina stærstu umboðsskrifstofu Þýskalands. Kári hefur verið að vinna fyrir ELLE Magazine, Max Mara Group, CHANEL og Dior svo eitthvað sé nefnt. 

Aðspurður hvaðan hann sé segist hann vera Reykvíkingur og allt frá barnsaldri hafi tíska og hönnun verið í hans nærumhverfi. „Foreldrar mínir ráku vinsælar verslanir á níunda áratugnum í borginni, ég vann sjálfur tengt tísku í mörg ár svo ætli ég myndi ekki segja að ég hafi bæði fæðst með áhugann og einnig fengið frábæra kynningu í gegnum uppeldi mitt og svo seinna starfsreynsluna,“ segir Kári og bætir við að hann hafi átt sterkar fyrirmyndir í foreldrum sínum. Þau hafi kennti honum vinnusemi og þrautseigju.
Ljósmynd/Kári Sverris

Menntun er góður grunnur

Ljósmyndun hafði lengi blundað í Kára, þó það hafi tekið hann tíma að taka ákvörðun um að gera fagið að sinni aðalvinnu. Hann ákvað að fara utan í ljósmyndanám árið 2014 í London College of Fashion, en inn í þennan virta skóla komst hann beint í mastersnám vegna hæfileika og getu á sínu sviði. „London er frábær borg og skólinn sá allra besti að margra mati, svo ég fékk gott tækifæri til að undirbúa mig fyrir framtíðina. Þetta 15 mánaða nám breytti ferli mínum sem ljósmyndara, efldi tengslanet mitt og fékk mig til að skoða ferilinn út frá stærra samhengi.“

Kári býr á Íslandi og í Þýskalandi þar sem hann hefur verið að starfa fyrir virta umboðsskrifstofu. En nýverið skrifaði hann undir samning við eina stærstu umboðsskrifstofu Þýskalands. Hann er einnig með sitt eigið fyrirtæki hér á landi, Iceland Creatives, sem er umboðsskrifstofa og framleiðslufyrirtæki sem hann rekur með Ingu Eiriksdóttur. En þess má geta að Inga hefur langa og víðtæka reynslu í fyrirsætuheiminum. „Ég er einnig að kenna í ljósmyndaskólanum hér heima, og hef mjög gaman að því.“

Aðspurður hvernig sé að vinna hér heima og erlendis segir hann ólíkt að starfa á Íslandi og í Þýskalandi. „Sem er áhugavert að mínu mati. Þjóðverjar eru skipulagðir, panta mann mánuð fyrir tímann, og senda dagskrá nokkrum dögum fyrir myndatöku og sjá um nánast allt sem þarf að hugsa fyrir. Á meðan Íslendingar eru skemmtilega afslappaðir, hér er sumt óskipulagðara en einfaldara. Mér þykir vænt um að fá tækifæri til að starfa út um allan heim, og ekki síst að fá verkefni hér heima. En hér á ég tvö börn sem ég nýt að vera með. Svo hlutirnir eru nákvæmlega eins og ég vil hafa þá í dag,“ segir hann og bætir við. „Þó ég sjái fyrir mér að gera ennþá fleiri spennandi verkefni í framtíðinni.“

Ljósmynd/Kári Sverris

Það þarf hugrekki til að skipta um feril

En hvernig vissi Kári að hann langaði að leggja ljósmyndun fyrir sig? „Ég vann sjálfur í tísku-iðnaðinum og fann hvað það togaði í mig að skapa, að búa til veröld og vera að gera eitthvað listrænt. Svo þegar ég keypti mér fyrst myndavél árið 2005, byrjaði ég bara að fikra mig áfram og það tók mig ekki langan tíma að átta mig á að þetta væri það sem mig langaði að gera.“

Aðspurður hvernig það hafi verið að skipta um starfsvettvang á besta aldri segir Kári að lengi vel hafi hann stundað ljósmyndun með vinnu, en síðan hafi hann tekið ákvörðun um að mennta sig í faginu og svo fara alveg inn í ljósmyndabransann. „Ég viðurkenni alveg að það reyndi á hugrekkið, en í skólanum fékk ég líka staðfestingu á því að áhuga mínum fylgdu hæfileikar og það hafði ég að leiðarljósi þegar ég steig þessi skref til fulls.“

Kára bauðst eins og fyrr hefur komið fram að fara beint í mastersnám í London College of Fashion vegna þeirrar hæfni sem hann sýndi í ljósmyndun. Hvaða áhrif hefur slíkt á ferilinn? „Í þessum frábæra skóla er fyrst og fremst góð kennsla. Kennararnir eru framúrskarandi í sínu fagi og nemendurnir þeir bestu hverju sinni í heiminum. En ætli ég verði ekki að leggja að jöfnu, kennsluna og tengslanetið sem maður fær á að vera í þessu námi.“

Kári er einlægur þegar hann segir að hann sé þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem hann hefur fengið í lífi og starfi. „Ég trúi því að það sem ég legg í vinnuna mína og reyni að gera á uppbyggilegan hátt fái ég til baka. Það er eitthvað sem er okkur æðra og því tel ég að ef ég er vakandi í lífinu, þá fái ég þau tækifæri sem mér eru ætluð í þessu lífi.“

Hjartað lagt í vinnuna

Kári hefur undanfarið verið að sinna verkefnum fyrir ELLE Magazine, Max Mara Group, tískuþátt fyrir CHANEL og förðunarþátt fyrir Dior o.fl., en hann hefur einnig verið að taka upp áhugaverðar auglýsingar hér á landi. Aðspurður hvernig ljósmyndari hann sé segir hann erfitt að útskýra það sjálfur. „Ég hef oft heyrt að ég hafi minn eigin stíl, að myndirnar mínar séu persónulegar, að ég nái tengingu við viðfangsefnið en samt úr ákveðinni fjarlægð og það sé ákveðin kyrrð yfir myndunum. Fagið hittir mig í hjartastað, ég vona allavega að það komi fram á einhvern hátt í myndunum.“

En hverju fleira hefur Kári áhuga á? „Ég er mikið fyrir fjölskylduna og á tvö yndisleg börn á Íslandi, sem er meginástæða þess að ég sæki hingað í vinnu og viðveru um þessar mundir. En ég á líka kærasta í Þýskalandi, sem heitir Ben og við eigum frábærar stundir saman sem skipta mig máli.“

Þegar kemur að framtíðinni, þá er augljóst að Kári er jarðbundinn maður, hann dreymir um að eiga býli í heitu landi með dýrum. „Svo væri ég til í að ferðast út um allan heim að sinna verkefnum, sem ég get valið sjálfur að taka. Það að hafa val skiptir mig máli,“ segir þessi einlægi ljósmyndari að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál