Gerði móður sína arga með fatabreytingum

Rakel Ársælsdóttir fatahönnuður rekur verslunina Afrodita í Reykjanesbæ.
Rakel Ársælsdóttir fatahönnuður rekur verslunina Afrodita í Reykjanesbæ.

Rakel Ársælsdóttir rekur verslunina Afrodita í Reykjanesbæ en hún hefur verið töluvert lengi viðriðin fatabransann eða síðan 2001. Frá því hún var lítil stelpa hafði hún mikinn áhuga á tísku og fatnaði. 

„Ég byrjaði mjög snemma að breyta fötunum mínum, t.d. þrengja og stytta buxur og kjóla móður minnar til mikillar gleði eða þannig,“ segir hún og hlær og bætir við:

„Einnig saumaði ég sjálf flest alla kjólana mína sjálf fyrir grunnskólaböllin.“

Hvað gerðist svo?

„Ég byrjaði í verslunarrekstri árið 2001 og rak fataverslun í Keflavík í um það bil 8 ár. Eftir það opnaði ég skóverslun á netinu. Það þótti mér mjög skemmtilegt en áhuginn minn var alltaf hönnun og tíska. Í kjölfarið blundaði alltaf í mér að stofna fataverslun á netinu sem býður upp á hátískufatnað á konur á góðu verði. Ég sjálf verslaði mikið af netinu og þótti mig vanta netverslun sem auðvelt er að panta af hér á landi. Þá stofnaði ég netverslunina www.afroditadesign.is,“ segir Rakel en hún hannar flestar flíkurnar sem seldar eru í netversluninni.

Hvers vegna fetaðir þú þessa braut?

„Ég hef alltaf haft gaman að því að klæða og stílisera konur og koma þeim út fyrir þægindarammann sinn. Ég elska liti og hef ávallt lagt mikið upp úr því að koma íslenskum konum út úr þessu svarta sem við eigum til að festa okkur í,“ segir hún. 

Rakel elskar vinnuna sína því hún er svo fjölbreytt. 

„Að geta boðið íslenskum konum upp á fallegan fatnað á góðu verði gefur mér mikið.“

Hvernig er þinn persónulegi stíll? 

„Minn persónulegi stíll á það til að breytast og fylgja tískubylgjum hverju sinni. Ég veit hins vegar hvaða snið klæða mig best og reyni að forðast að detta í eitthvað sem ég veit að fer mér alls ekki. Ég klæðist sjálf mikið uppháum buxum sem taka mittið saman og elska samfellur. Ég á það einnig til að sækja mikið í samfestinga sem hægt er að dressa bæði upp og niður.“

Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum?

„Það hafa mörg tískuslys komið og farið út úr fataskápnum mínum í gegnum árin. Það helsta sem ég man eftir voru gul kúrekastígvél sem ég gjörsamlega notaði við allt.“

Uppáhaldshönnuðir?

„Mínir uppáhaldshönnuðir sem ég hef fylgst með í mörg ár eru annars vegar Roberto Cavalli. Ég elska hvernig hann notar mismunandi munstur í hönnun sinni og hvernig hann sníður kjóla á konur svo kvenlegur vöxtur fái að njóta sín. Einnig heillar hönnun Vivienne Westwood mig mikið. Þá aðallega hvernig hún notar liti og snið til að tjá list sína í hönnun sinni.“

Hverjir eru þínir uppáhaldslitir?

„Pastellitir hafa alltaf heillað mig mikið þá aðallega pastel bleikt, blátt og nude. Þeir klikka aldrei, eru klassískir og ganga yfirleitt.“

Hvernig vilja íslenskar konur klæða sig?

„Íslenskar konur eiga það til að forðast liti. Ég hef lagt mikið upp úr því að koma íslenskum konum út fyrir þægindarammann og para til dæmis klassískum svörtum leggings/buxum við eitthvað litríkt að ofan.“

Hvað getum við gert til að vera alltaf tipp topp til fara?

„Mitt ráð við að vera alltaf fín til fara er að eiga eitt par af klassískum svörtum buxum sem klæða þig vel. Það er alltaf hægt að para þeim við fallegan bol og flotta kápu.“

Hvert er besta tískuráð allra tíma?

„Mitt tískuráð er að eiga fallegan samfesting sem alltaf er hægt að grípa til við öll tilefni.“

Eru konur nógu duglegar að versla af netinu?

„Ég held að konur séu hræddar við að versla af netinu þar sem þær geta ekki mátað fötin. Þess vegna hef ég reynt að gera þetta eins auðvelt og mögulegt er með því að bjóða upp á frían sendingarkostnað og möguleikann á að skila eða skipta fatnaðinum ef þess þarf.“ 

Hvert stefnir þú í lífinu?

„Mín stefna er að halda áfram að byggja upp fyrirtækið mitt og bjóða upp á einfalda og góða þjónustu á netinu. Ég er að vinna að því að hefja möguleikann fyrir konur á Norðurlöndunum að versla af netverslun minni. Fjölskyldan mín er einnig ávallt í forgangi og að eyða tíma með börnunum mínum er það dýrmætasta sem ég geri. Með það sagt þá er ég mjög spennt fyrir komandi tímum hvað varðar fyrirtæki mitt og fjölskyldu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál