Eru leigufataskápar framtíðin?

Álfrún Pálsdóttir kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.
Álfrún Pálsdóttir kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, sótti Copenhagen Fashion Summit á dögunum. Hún segir að við höfum minna en 12 ár til að bregðast við loftslagsbreytingum. En hvernig er hægt að hafa áhuga á tísku og vera umhverfisvænn á sama tíma? 

Ráðstefnan Copenhagen Fashion Summit fór fram í tíunda sinn í Kaupmannahöfn um miðjan maí. Álfrún segir að hana hafi lengi langað á þessa ráðstefnu og því má segja að gamall draumur hafi ræst.

„Mig hefur lengi langað að fara á þessa ráðstefnu en markmið hennar er að varpa ljósi á hvaða áhrif tískuheimurinn og fataframleiðsla hefur á umhverfis- og samfélagsleg málefni – hvetja til samtals og ekki síst framkvæmdar í rétta átt þegar kemur að sjálfbærni og breyttum aðferðum í þessum geira. Ráðstefnan er skipulögð af Global Fashion Agenda, samtökum sem voru stofnuð í tilefni af loftslagsráðstefnunni sem fór fram í Kaupmannahöfn 2009. Þar hittast helstu topparnir í tískuheiminum, stjórnmálamenn, fataframleiðendur og skapandi geirinn til að ræða saman um sjálfbærni í tískuheiminum, varpa ljósi á stöðuna (sem er ansi slæm!!) og reyna að finna lausnir.

Þessi ráðstefna var ekki til að slá á loftslagskvíðann hjá mér og það er nokkuð ljóst að aðgerða er þörf, ekki seinna en strax í þessum geira og það var í raun rauði þráðurinn þetta árið, það er búið að tala í nokkur ár um þörfina fyrir breytingar á meðan sjálf framkvæmdin hefur gengið hægt,“ segir Álfrún.

Hún segir að það sé mikil og brýn þörf fyrir breytingar í þessum efnum og hversu mikilvægt það er að breiða boðskapinn út.

„Sömuleiðis held ég að í þessu öllu saman felist mikil tækifæri, til dæmis fyrir íslenska hönnun að vera leiðandi þegar kemur að umhverfis- og sjálfbærnimálum.“

– Hvað kom þér mest á óvart?

„Það var fullt sem kom mér á óvart en kannski það sem stendur upp úr er hversu slæm staðan er í raun og veru. Við höfum sirka 12 ár (líklega minna samt) til að snúa þessari þróun við ef ekki á illa að fara. Og þetta þarf að vera samhent átak á milli stjórnvalda, tískuhúsa og fataframleiðenda og neytenda.

Það var fullt af góðum hugmyndum kynnt á ráðstefnunni sem mér fannst áhugavert að fræðast meira um. Til dæmis er aukning á sölu á notuðum fatnaði, það eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í móttöku á notuðum fatnaði og koma í réttar hendur aðila sem geta nýtt sér fatnaðinn til að búa til nýtt. Í Asíu er að verða til stór markaður fyrir svokallaða leigufataskápa, sem sagt hálfgert deilihagkerfi í fatnaði og fylgihlutum, maður leigir sér flíkur og skilar svo aftur. Það gæti verið sniðug leið til að prufa sig áfram í tískunni án þess að sitja uppi með fullan fataskáp af ónotuðum flíkum – sporna við offramleiðslu?“

– Hvernig er tískuheimurinn að breytast?

„Sem betur fer er þróunin í jákvæða átt – það er bara ekki að gerast nógu hratt. Neytendur eru farnir að vera meðvitaðari, gera kröfur um gagnsæi í framleiðsluháttum, lífrænt efnisval og að flíkur endist. Margir fataframleiðendur eru líka farnir að kveikja á því að framtíðin felst í sjálfbærni – og sömuleiðis fjárfestar. Eins og kom fram á ráðstefnunni þá mun ekkert fyrirtæki í dag lifa af nema fara að fjárfesta í sjálfbærni til frambúðar.

Sem dæmi má taka að mörg tískuhús í heiminum eru hætt að nota alvöru loðskinn. Það er jákvæð þróun.

Það sem er brýnt að taka á er offramleiðsla á fatnaði því staðreyndin er sú að gríðarlegt magn af flíkum endar í landfyllingum með tilheyrandi slæmum umhverfisáhrifum.

Tískuheimurinn er sá bransi sem mengar hvað mest í heiminum og einnig sá heimur sem hefur þurft að lúta hvað minnstum lögum og reglum í þessum efnum. Það þarf að breytast.“

– Hvernig getur venjuleg manneskja aðlagað sig þessum breyttu aðstæðum?

„Í upphafi ráðstefnunnar fannst mér flókið hvernig ég sem neytandi ætti að sameina áhuga á fatahönnun og umhverfisvitund. Tíska er frábær og á að vera leiðandi í baráttunni gegn stereotýpum og kynjamisrétti því í grunninn snýst hún um tjáningu og frelsi.

Ábyrgð okkar sem neytendur er mikil og í grunninn snýst þetta um hugarfarsbreytingu. Við þurfum að taka skref til baka og rýna í eigin neysluhegðun, hvað erum við að kaupa, af hverju og erum við að nýta það sem eigum til nógu vel?

Hvernig förum við með fötin okkar, þvoum við flíkur á réttan hátt, getum við gert við flíkur sem rifna eða eyðileggjast? Spyrjum við réttra spurninga þegar við fjárfestum í fatnaði eins og til dæmis hvar er flíkin framleidd og hvaða efni er í henni? Hvaða kolefnisspor skilur flíkin eftir sig? Lífræn efni eru til dæmis alltaf besti kosturinn ef það er í boði.

Þarna þurfa framleiðendur líka að koma inn og merkja flíkurnar betur – og það kom til dæmis upp sú hugmynd á ráðstefnunni að fataframleiðendur, verslanir og tískuhús ættu að vera skuldbundin til að taka við flíkum aftur þegar neytandinn er hættur að nota þær. Þau eru með öll verkfærin í höndunum til að endurnýta.

Ég verð samt að taka undir áskorun sem franski umhverfisráðherrann, Brune Poirson, setti fram á ráðstefnunni en hún er sú að það verður að finna lausnir til að framleiða sjálfbæran og umhverfisvænan fatnað fyrir alla. Þyngsta byrðin má ekki vera á fátækasta hluta heimsins því allir eiga skilið að geta fjárfest í sjálfbærum og umhverfisvænum fatnaði.

Nú eiga hönnuðir að nýta tækifærið – finna lausnir – því eitt stærsta aflið sem við eigum til og enginn getur tekið frá okkur er sjálft hugverkið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál