Er varanlega varafylling málið eða?

Hægt er að láta stækka varirnar á þrjá vegu.
Hægt er að láta stækka varirnar á þrjá vegu.

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem er forvitin um varanlegar fyllingar í varir. 

Góðan dag. 

Mig langar að vita um varanlega fyllingu í varir. Getur þú sagt mér eitthvað um það?

Kveðja, KH

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.


Sæl

Fyllingar í varir skiptast í raun í þrennt; varanlegar fyllingar, hálf-varanlegar (semi-permanent) fyllingar og svo fyllingar sem hverfa. Varanlegar fyllingar eru eingöngu á færi lýtalækna þar sem þeir t.d. setja implant í varir eða framkvæma fitufyllingu. Hálf-varanleg fylliefni voru algengari áður fyrr og sérstaklega áður en fylliefnin sem við notum mest í dag náðu vinsældum. Þessi efni hverfa ekki að fullu og ástæðan fyrir því að þau hafa verið á undanhaldi er að þau orsaka oftar ofnæmis- og bólguviðbrögð í vörunum.

Ef þú ert að hugsa um að fá þér varanlega fyllingu í varir mæli ég með því að þú pantir þér viðtalstíma hjá lýtalækni sem fer yfir valmöguleika þína.

Kærar kveðjur,

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is