„Góðir ilmir veita gleði og fylla hjartað af hlýju“

Listrænt teymi Fischer. systkin og mkar sem öll koma með …
Listrænt teymi Fischer. systkin og mkar sem öll koma með einum eða öðrum þærri að vörum og þróun fyrirtækisins. Lilja, Jónsi, Sigurrós, Sindri, Inga og Kjartan og Alex.

Fischer er lítið fjölskyldufyrirtæki í gamla Grjótaþorpinu í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafast við systkinin Jón Þór, Lilja, Ingibjörg og Sigurrós Elín Birgisbörn – ásamt foreldrum sínum, þeim Birgi Ögmundssyni og Guðrúnu S. Jónsdóttur. Þau eru öll með sitt sérsvið sem spannar allt frá myndlist, tónlist, ilmvatnsgerð og hönnun til járnsmíði sem nýtist í uppbyggingu á vörumerki þeirra, Fischer. Þekktastur af þeim er vafalaust tónlistarmaðurinn Jón Þór úr hljómsveitinni Sigur Rós – sem er einmitt nefnd í höfuðið á litlu systur hans, sem fæddist sama dag og hljómsveitin var stofnuð.

Nefið eitt af helstu skynfærunum

Það sem sameinar þau, öll sem eitt, er einlægur áhugi þeirra á jólunum, og hvað þau tengja þennan tíma mikið ilmupplifun og minningunni um góða gamla tíma.

Það er því áhugavert að fá innsýn ilmgæðinganna í fjölskyldunni í það hvernig ilmir geta fært okkur nær sönnum jólaanda.

„Nefið er eitt af helstu skynfærum okkar og lyktarskynið er nátengt minningum okkar og tilfinningum. Þess vegna er hægt að nota ilmi til þess að komast á vit gamalla minninga og skapa hlýjar hefðir. Við erum með ilmsýningu í kjallara Fischer sem stendur öllum til boða nú um jólin og þar er ein ilmsaga frá því þegar appelsínur komu fyrst til landsins. Það er magnað að tala við fullorðið fólk sem man eftir því þegar epli og appelsínur voru bara til á jólunum og hvernig þessi ilmur situr í fólki sem merki um sannan jólaanda og nostalgíu. Fólk verður oft meyrt þegar það finnur ilminn af appelsínunum og deilir góðum minningum af þessu gúmmelaði þegar hlutir voru af skornum skammti hér á landi. Þessir ávextir komu til landsins eins og ilmandi ljósgeislar inn í íslenska skammdegið,“ segir Lilja.

Sigurrós er með frábært nef fyrir alls konar ilmum rétt …
Sigurrós er með frábært nef fyrir alls konar ilmum rétt eins og aðrir meðlimir Fischer-fjölskyldunnar.

Hvernig er hægt að skreyta með ilmi um hátíðina?

„Ég kaupi mér alltaf ilmkerti um hátíðirnar og leyfi því að fylla upp í stofuna mína. Íslensku ilmolíurnar úr lindifuru og fjallaþin eru það hátíðlegasta sem ég veit og svo eru þær líka góðar fyrir andrúmsloftið.

Svo kaupi ég alltaf íslenskt jólatré frá Skógræktarfélagi Íslands, sem nýtir peninginn frá mér til að planta fleiri trjám. Ég fæ alltaf auka greinar sem ég sting inn í kamínuna og þá kemur yndislegur ilmur af brenndu greni. Ég fæ ekki nóg af því. Svo má auðvitað skreyta húsið með smákökuilmi, en það er mjög hlýr ilmur sem snertir djúpan hjartastreng í flestum. Þegar maður finnur ilminn af nýbökuðum smákökum er maður strax kominn í eldhúsið til mömmu í æskustöðvarnar og þá verður allt einhvern veginn hjúpað mjúkum glassúr. Uppáhaldssmákökurnar mínar eru piparjunkur sem mamma gerir, en þær eru gömul uppskrift sem kemur með jólin til mín,“ segir Lilja.

Verslunin Fischer er í einstöku húsnæði í miðborginni.
Verslunin Fischer er í einstöku húsnæði í miðborginni.

Jón Þór lýsir upphafi á áhuga sínum á ilmvötnum og ilmkjarna þannig að hann hafi byrjað að kaupa nokkrar ilmkjarnaolíur og blanda þeim saman. „Tæknilega séð kemst maður bara upp að ákveðnu marki með þær, en næsta stig er að fara út í ilmefni (e. aroma chemicals). Þegar þangað er komið er maður svolítið dottinn í djúpu laugina og þá verður ekki aftur snúið. Þá taka við margar misheppnaðar tilraunir þangað til ein ilmblanda stendur upp úr sem sigurvegari,“ segir hann og hlær.

Ilmurinn af brenndum greinum heillar.
Ilmurinn af brenndum greinum heillar.

Ilmur sem minnir á tugginn rabarbara

Hvernig lýsir þú nýja ilminum sem þú gerðir fyrir Fischer?

„Hann er ferskur og sumarlegur og blómlegur og minnir mig á æskuárin þar sem ég ólst upp í Mosfellsbæ.“

Nánari ilmlýsing Jón Þórs er að ilmurinn minni á glænýja strigaskó kremja plöntustilka á heitu malbikunu. Sítrónubrjóstsykur í munni og sæt smurolía á fingrum. Ilmurinn minnir einnig á stolinn rabarbara á bögglabera, afhýddan, baðaðan í hunangi; smávegis tugginn. Eins er tónn af appelsínukökumylsnu í vasa á nýþvegnum fötum og köldum vindi í hári í rökum furuskógi.

Hann segir jólin alltaf hafa verið hátíðleg. „Ég hef verið nokkur jól í Bandaríkjunum og það var skrítið að upplifa það. Enginn hátíðleiki og enginn sem kæddi sig upp á. Eins vantar kirkjuklukkurnar og hátíðleikann þegar þær hringja inn jólin klukkan sex. Þar sem allir knúsast og bjóða hver öðrum gleðileg jól og síðan er sest niður og matarins notið.“ Birgir bætir við að í minningu sinni sé ilmurinn af eplum áberandi. „Þeim sem komu til landsins með skipum. Það var þá sem jólin máttu koma.“

Eina sem hefur breyst í gegnum árin er maturinn

Hvað gerðuð þið saman sem fjölskylda þá og hvað gerið þið nú?

„Ég held að það eina sem búið er að breytast að einhverju leyti sé jólamaturinn þar sem ég og fleiri í fjölskyldunni erum orðin vegan. Í staðinn fyrir hamborgarhrygginn er komið margréttað hlaðborð með vegan-wellington sem aðalrétt,“ segir Sigurrós og Jón Þór bætir við að fjölskyldan sé frekar vanaföst þegar kemur að jólunum.

„Við borðum alltaf möndlugraut í hádeginu með stórfjölskyldunni og síðan förum við í sturtu og klæðum okkur upp á í fínu fötin okkar. Við höfum alltaf kveikt á útvarpinu á meðan við eldum þannig að við heyrum í klukkunum hringja inn jólin klukkan sex og þá óskum við hvert öðru gleðilegra jóla og verðum ægilega meyr. Síðan borðum við öll saman. Þegar maður var yngri að deyja úr spenningi fékk maður að opna einn pakka fyrir matinn en annars svona á seinni árum setjumst við bara niður í stofunni í rólegheitunum og opnum pakkana saman,“ segir Sigurrós.

Jónsi er með mikinn áhuga á ilmvatnsgerð.
Jónsi er með mikinn áhuga á ilmvatnsgerð.

Birgir minnist þess að hafa haft þann fasta lið að sækja kirkju á aðfangadag. „Pabbi tók okkur bræðurna á meðan mamma var eftir heima að elda. En nú er maður sjálfur fastur í eldhúsinu,“ segir hann og brosir.

Sigurrós segir ekkert betra í veröldinni en jólin, því þá hittir hún fjölskylduna og fjarskylda ættinga í jólaboðum. „Að sjálfsögðu borðar maður alltaf of mikið af mat, föndrar og bakar eins og maður fái borgað fyrir það og röltir um í miðbænum á Þorláksmessu að leita að seinustu gjöfinni. Allt hefur þetta með ilm að gera að mínu mati. Jólin væru ekki jafn hátíðleg og nostalgísk ef það væri ekki fyrir allar lyktirnar sem þú tengir við góðar tilfinningar. Ilmur af nýbökuðum piparkökum, hamborgarhryggur í ofni, negulnaglar í appelsínum og ristaðar möndlur í bréfpoka eru allt litlir hlutir eitt og sér en sett saman eru það jólin í hnotskurn fyrir mér.“

Flókið ferli að framleiða ilmvötn

Þegar kemur að því að framleiða ilmvatn segja þau ferlið mjög flókið þar sem allt snúast um nákvæmni.

„0.001 gramm of mikið af öflugri ilmolíu getur alveg gjörbreytt heilli ilmblöndu sem heldur manni iðulega á tánum, sem er bara gott. Mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt að vinna með íslenskar ilmkjarnaolíur þar sem þær eru svo ferskar og lifandi. Tæknilega séð gera þær hverja blöndu smá breytilega því engin tvö tré eru eins en mér finnst það í raun gera ilmvatnið okkar sérstakara fyrir vikið,“ segir Lilja.

Þegar kemur að jólalegum gjöfum mæla þau með tveimur vörum sem eru mjög jólalegar og skemmtilega ilmandi. „Það eru reykelsin sem pabbi gerir og ilmkertið sem Rósa (Sigurrós) gerir. Þau innihalda bæði ilmolíublöndur sem innihalda íslenskar furutegundir sem eru mjög ferskar og jólalegar. Ilmurinn er eins og að vera inni í íslenskum furuskógi við varðeld með sykurpúða á grein.“

Það er áhugavert að upplifa jólin út frá ilmum og í raun fáheyrt hversu klár fjölskyldan er að flokka og raða tengt ilmum.

„Aðdragandi jólanna er umlukinn allskonar lykt sem gaman er að veita eftirtekt. Lyktin af nýstraujuðum sparifötum, lyktin af köldu vetrarloftinu þegar við göngum í bænum, þar sem er ilmur af nýrri bók, ilmur af eftirvæntingunni þegar búið er að leggja á borð en ekki segja gjörðu svo vel, rakspíralyktin af pabba þegar við föðmum hann klukkan sex, sykurhúðaðir kossar krakkanna eftir að hafa klárað jólagatal dagsins, ilmurinn þegar maður rífur börkinn af mandarínunni, nýlagað kaffi á jóladagsmorgni; þetta eru allt lítil dæmi um ilmandi örsögur af jólaundirbúningnum.“

Fischer no 8 er nýr ilmur sem hægt er að …
Fischer no 8 er nýr ilmur sem hægt er að fá bæði í fljótandi formi og í föstu formi.

Þau eru á því að ilmir séu alltumlykjandi og það sé þegar maður veitir því eftirtekt sem töfrarnir gerast.

„Góðir ilmir veita gleði og fylla hjartað af hlýju og góðum minningum,“ segja þau í lokin.

Jónsi er með gott nef fyrir ilmvatnsþróun.
Jónsi er með gott nef fyrir ilmvatnsþróun.
Sjampó í föstu formi frá Fischer.
Sjampó í föstu formi frá Fischer.
Ilmvötn í föstu formi heilla.
Ilmvötn í föstu formi heilla.
Reykelsi búið til í Fischer.
Reykelsi búið til í Fischer.
Konurnar í Fischer.
Konurnar í Fischer.
Listrænt teymi Fischer.
Listrænt teymi Fischer.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál