Tískuiðnaðinum sett mörk í Davos

CEO Agenda 2020 setur leiðtogum tískuiðnaðarins mörk þegar kemur að …
CEO Agenda 2020 setur leiðtogum tískuiðnaðarins mörk þegar kemur að framleiðslu og viðskiptaháttum á árinu.

Leiðtogar heimsins ásamt leiðtogum fyrirækja í tískuiðnaðinum hafa samþykkt nýja tillögu um markmið fyrir tískuiðnaðinn árið 2020. Fyrirtækin skuldbinda sig að huga að umhverfisvænni framleiðslu, að hækka laun í greininni og að þróast í takt við 4. iðnbyltinguna. 

Á vef Global Fashion Agenda má lesa um CEO AGENDA 2020, sem er stefna samþykkt af þjóðarleiðtogum á vegum World Economic Forum í Davos nýverið. Fyrirtæki á borð við ASOS, BESTSELLER, H&M Group, Kering, Li & Fung, Nike, PVH Corp. og Target eru á meðal þeirra sem skrifa undir sáttmálann, um að leggja sitt af mörkum í að gera tískuiðnaðinn bæði efnahagslega og einnig samfélagslega ábyrgari. 

Á meðal þess sem nauðsynlegt þykir er að leiðtogar tískufyrirtækjanna endurskilgreini vöxt  greinarinnar. Ef fram fer sem horfir mun vöxtur greinarinnar ná 81% árið 2030. Það er talið hættulegt heimsbyggðinni allri. Enda eru þolmörk jarðarinnar til framleiðslu talin lúta stærð hennar og verða leiðtogar að skilja að náttúruauðlindir eru takmarkaðar eins og segir í stefnunni. Þetta er staðreynd sem margir hafa ekki tekið með inn í viðskiptaáætlanir sínar til þessa.

Hver og einn verður að taka ábyrgð

Það er á valdi hvers og eins að finna leiðir sem virka og eru öll fyrirtæki sem starfa innan tísku og hönnunar hvött til að ráðstafa hluta af fé úr rekstri í rannsókn og þróun til að finna nýjar leiðir til framleiðslu, til að endurskilgreina viðskiptamódel sín og endurhugsa framleiðsluleiðir.  

Eva Kruse, forstjóri Global Fashion Agenda, segir almenning í dag lifa á tímum sem eru nýir á nálinni. Að í raun megi segja að aldrei fyrr hafi sóun, ofnotkun og umframframleiðsla verið jafn mikil og  núna. 

„Við erum komin yfir þolmörk jarðarinnar. Þess vegna hvet ég leiðtoga innan tískuiðnaðarins að endurhugsa á hverju þeir byggja viðskiptaáætlanir sínar og vöxt næstu ára. Þetta er ekki einvörðungu nauðsynlegt til að viðhalda fyrirtækjunum sjálfum í iðnaði, heldur einnig til að fara ekki yfir þau mörk sem jörðin setur okkur stærðarlega séð. Ég átta mig á að þetta er ekki auðvelt verkefni að framkvæma, það er einmitt þess vegna sem ég kom að hugmyndavinnu CEO AGENDA. Við vonum að stefnan verði hagnýtt tæki til að aðstoða forstjóra víða um heiminn við að hagræða í þágu umhverfisins, að finna leiðir og vernda þannig komandi kynslóðir.“

Það sem þykir aðkallandi um þessar mundir er að endurhugsa þau efni sem notuð eru við framleiðslu á tískufatnaði. Í dag er iðnaðurinn þurftafrekur þegar kemur að landi, vatni, orku og öðrum náttúruauðlindum og hefur úrgangur vegna framleiðslu skaðandi áhrif á umhverfið víða um heiminn. 

Mikilvægt að huga að átta atriðum

Með því að fjalla um tískuna í Davos og færa ólíkt fagfólk að borði færist heimsbyggðin öll nær þeim markmiðum að tískuiðnaðurinn geti ástundað ábyrga viðskiptahætti og ekki skaðað umhverfið meira en hann er að gera í dag. 

Samkvæmt Stefnuskránni fyrir árið 2020 eru skilgreind átta atriði sem forstjórar ættu að hafa í huga. Mikilvægt þykir að huga strax að því að einfalda framleiðslu, snúa við áhrifum framleiðslunnar vegna loftslagsbreytinga, passa upp á hvernig farið er með vatn, orku og efni í náttúrunni við framleiðslu og að tryggja vinnuskilyrði þeirra sem sjá um að framleiða fatnaðinn. 

Til lengri tíma litið og hluti af grunnbreytingum þarf iðnaðurinn að finna upp á efnum sem eru umhverfisvænni, kynna sér og taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu. Eins þarf að hækka laun iðnaðarins í samþykkt viðunandi lágmarkslaun í hverju landi. Síðan þykir nauðsynlegt að iðnaðurinn uppfæri þekkingu og aðlagist hugsun fjórðu iðnbyltingarinnar þegar kemur að tækni og nýsköpun, svo dæmi séu tekin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál