Barbie lagði grunninn að því sem síðar kom

Elín Edda Árnadóttir búningahönnuður og listamaður.
Elín Edda Árnadóttir búningahönnuður og listamaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Edda Árnadóttir búningahönnuður og listamaður sýnir CATWALK-Black Box Art á Mokka og tengjast myndirnar uppfærslu Borgarleikhússins á söngleiknum Chicago sem færði Elínu Eddu Grímuverðlaunin árið 2004 fyrir búningahönnun. Hún er margverðlaunuð á sínu sviði en ferillinn spannar aftur til ársins 1992. 

„Ákvörðun mín að sýna á Mokka er af gömlum toga þar sem það er eitt elsta kaffihúsið og einn elsti sýningarsalurinn í Reykjavík. Hér er hefðin og mikil saga fastagesta sem lögðu leið sína hingað sem margir störfuðu sem listamenn. Þessi sýning er einskonar gluggi fyrir áhorfandann sem kemur á sýninguna því þessar teikningar eru það stig í búningahönnuninni sem er vinnu-hugmyndaferlið. Þar ertu einn við sköpun og ræður ferðinni. Sem hönnuður hef ég oft fengist við búningahönnun fyrir söngleiki í gegnum tíðina eins og Galdrakallin í OZ, Cabaret, Grease, Singing in the Rain og Chigago. Einnig hef ég fengist við leikmyndir og búningar fyrir dansverk hjá Íslenska dansflokknum undir stjórn Katrínar Hall sem var listrænn stjórnandi um 9 ára skeið. Þar vann ég með mörgum spennandi danshöfundum, innlendum og erlendum. Að hanna fyrir söngleiki er mikil áskorun oft margar senur og stórir hópar sem þarf að hreyfa og klæða í söng og dansi,“ segir Elín Edda. 

Eftir áralangan feril sem leikmynda-og búningahöfundur liggur mikið magn búningateikningu í möppum sem spanna yfir 35-40sýningar.

„Nú hefur gefist tími að fara í gegnum það gagnamagn teikninga. Þessar teikningar rata sjaldan inn á sýningarsalarveggi heldur sem raungerður búningur á sviði. Sýndi reyndar afrakstur búningavinnu í Stöðlakoti 1996 á teikningum í tengslum við verkið Blóðbrullaup eftir LORCA hjá Þjóðleikhúsinu,“ segir hún. 

„Í æsku lék ég mikið með dúkkulísur og teiknaði föt á þær. Svo kom Barbie sem umbylti dúkkulísunni í þrívídd og þá tók saumaskapurinn við. Ég er alin upp við saumaskap, amma mín, Elín Fanný, var forstöðumaður búningadeildar Þjóðleikhússins. Þar hafði ég beinan aðgang að þeirri búningagerð sem fór fram á saumadeildinni. Ég var alltaf spennt þegar nýjar búningateikningar komu í hús eftir Lárus Ingólfsson, Gunnar Bjarnason, Sigurjón Jóhannson, Unu Collinso og fleiri. Móðir mín, Edda Ágústsdóttir, starfaði einnig við búningadeildina sem búningasaumari. Þannig má segja að þetta sé í blóðinu að meðhöndla efni, tölur og tvinna,“ segir Elín Edda. 

Elín Edda útskrifaðist úr grafíkdeild Mynd-og handíðaskóla Íslands 1983. Árið 1988 hélt fjölskyldan til Lundúna þar sem hún stundaði nám við leikhúsdeild Wimbledon School of Art og útskrifaðist þaðan 1991.

„Eftir heimkomu það árið var fyrsta verkefnið leikmynd og búningar við verkið, Ég heiti Ísbjörg og ég er ljón. Það má segja í framhaldi hafi tekið við ríkur og fjölbreyttur ferill sem leikmynda-og búningahöfundur við öll helstu leikhús landsins og einnig á Norðurlöndum. Vinna varðandi hönnun búninga er ólík eftir hvernig verk á í hlut. Umfangið og undirbúningur er mismunandi. Við undirbúning fer fram rannsóknarvinna þar sem baksvið verksins er ígrundað, verkið krufið til mergjar, karakterar og bakgrunnur kannaður. Þessi vinna er unnin með því teymi sem er í kringum hverja þá uppsetningu og verk sem á hlut. Samtal leikarans og hönnuðar er einnig mjög mikilvægt í vinnuferlinu. Það er mismunandi hvort teikning liggur til grundvallar en þá er oft stuðst við „Mood og Storyboard“ þar sem ýmislegt er tínt til svo sem myndefni, karakter einkenni, efni og litir sem eru einkennandi. Sjálfri finnst mér rannsóknarvinnan oft það skemmtilegasta í ferlinu.“

Eru búnir til nýir búningar fyrir hverja sýningu eða er allt gert frá grunni?

„Leikhúsin eiga góð búningasöfn sem hægt er að gramsa í og því er ekki er alltaf saumað frá grunni. Þess vegna er oft meir áskorun og meira umfang þegar um búningahönnun við söngleiki er að ræða því þá þarf oftast að saumað frá grunni. Því eru svo margar mannmargar senur að ræða sem þarf að klæða. Stundum er gömlum búningum breytt, fengnir til að sníða eftir því sem við á. Það er auðvitað alltaf mest spennandi þegar um frumgerð búninga er að ræða. Það sem gerir okkur búningahöfundum oft erfitt fyrir er lítið úrval af góðum efnum sem eru í boði á Íslandi. Oftar en ekki þarf maður að ferðast til borga eins og Lundúna, Parísar eða versla efni í gegnum leikhús bæklinga meðal annars frá Þýskalandi og Bretlandi, þar sem framleidd eru fín efni á borð við taft, organza, tweed, silki, flauel og fleira.

Á sýningu minni á Mokka eru hugmyndaverk frá söngleiknum Chigago sem var frumsýndur hjá Leikfélagi Reykjavíkur 2004 og fékk Grímuverðlaunin, sem bestu búningar ársins það leikárið.

„Tilgangurinn er að þessar teikningar líti dagsins ljós meðal almennings sem sjálfstæð listaverk í fallegu sýningarrými, sem veggir Mokka eru svo sannarlega. Og eru verkin til sölu í tölusettum eintökum á sanngjörnu verði.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Veturinn leggst vel í mig. Ég tók þátt í Hönnunarmars 2020 með hönnun á leðurtöskum úr sútuðum kýrjúgrum sem bera heitið Bûkolla. Einnig fyrirhuguð þátttaka á Torgi listamessa 2020 að Korpúlfsstöðum, þar sem ég hef mína vinnustofu! Jafnframt því að vera leikmynda- og búningahöfundur sinni ég myndlist þar sem ég vinn verk með bleki og japan bambus og penslum á pappír.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál