Helga hélt hún væri allt of gömul í þetta

Helga Guðrún Friðriksdóttir sat sjálf fyrir í myndatöku fyrir Orrafinn. …
Helga Guðrún Friðriksdóttir sat sjálf fyrir í myndatöku fyrir Orrafinn. Hún segir að það hafi verið langt út fyrir þægindarammann. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Helga Guðrún Friðriksdóttir rekur skartgripafyrirtækið Orrifinn með eiginmanni sínum, Orra Finnbogasyni. Á dögunum sat hún sjálf fyrir í myndatöku og segir að það hafi verið mjög mikið út fyrir rammann. Hún hafi spurt sjálfa sig margra óþægilegra spurninga og velt fyrir sér hvort hún væri ekki of gömul í þetta, of þreytt, of illa sofin og þar fram eftir götunum en hjónin hafa eignast tvö börn á síðustu fjórum árum en alls eiga þau fimm syni. 

„Þetta var mjög skemmtileg atburðarás, eftir á sé ég að þetta hefur verið skrifað í skýin. Þetta byrjaði með spjalli við Ástu Kristjáns ljósmyndara sem vatt upp á sig og við ákváðum upp úr því að vinna saman. Við vorum komnar áleiðis í prufum með fyrirsætur þegar Ásta segir: „Helga, af hverju gerir þú þetta ekki? Ég er viss um að þú myndast mjög vel og það væri bara svo fallegt og persónulegt að þú gerðir þetta sjálf. Treystirðu þér í það?“ Mér fannst pínu fyndið að hún skyldi segja þetta því mér hafði alveg dottið í hug sjálfri að ef ég færi út í það að láta taka myndaseríu af uppáhaldsskartgripasettunum mínum væri auðvitað persónulegast að ég bæri þau sjálf. En svo er sjálfsupplifun manns frekar truflandi. Hugsanirnar sem komu upp voru: „Er ég ekki alltof gömul? Það mun sjást hvað ég er þreytuleg, ég er svo illa sofin og tætt.“ Maður upplifir sig vissulega ekki sem fyrirsætuefni þegar maður er í fæðingarorlofi, dauðþreyttur, búinn að eignast tvö börn á undanförnum fjórum árum, maður lítur varla í spegil! Efasemdapúkinn kom sannarlega á öxlina en ég sigraðist á honum og lét mig hafa það að standa hinum megin við myndavélina, það var krefjandi en líka afskaplega frelsandi og gaman. Þetta heppnaðist líka svo vel, samstarfið við Ástu var ljúft og ekki var verra að Ísak Freyr förðunarfræðingur var sem betur fer laus og á landinu og farðaði mig af sinni alkunnu snilld. Þau voru svo sæt við mig og mér leið vel með þeim í stúdíóinu,“ segir Helga.

Helga á það til að hrúga á sig skartgripum og …
Helga á það til að hrúga á sig skartgripum og hafa mörg armbönd og mörg hálsmen á sama tíma. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Helga segir að þetta ár hafi verið frábrugðið öðrum árum þar sem þau ákváðu að koma ekki með nýja línu heldur bæta skartgripum inn í línuna Fléttu sem er þeirra vinsælasta lína. 

„Okkur hefur lengi langað til að gera svona brot-af-því-besta-myndatöku, semsagt mynda úrval af uppáhalds Orrifinn-skartgripunum okkar og hvernig við röðum þeim saman. Ég nota skartgripina okkar sjálf mjög mikið og er gjörn á að hrúga menum á mig og það hefur vakið athygli. Kúnnarnir í búðinni taka sérstaklega eftir því og þykir gaman að sjá hvernig ég sjálf raða skartinu saman og bý til mitt persónulega sett. Venjulega þegar við gefum út nýja skartgripalínu er mikil saga og hugmyndafræði á bak við línurnar sem við viljum svo að skili sér í myndatöku, að myndefnið endurspegli merkingu og táknheiminn bak við línuna. En á þessu skrýtna ári gefum við ekki út heila nýja línu heldur erum að bæta nýjum gripum inn í vinsælustu skartgripalínuna okkar, Fléttu. Þá opnaðist í rauninni fullkomið tækifæri til að vinna myndefnið á annan hátt og láta þennan draum rætast; að deila uppáhaldsgripunum okkar og samsetningu á þeim með öðrum,“ segir Helga. 

Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Hvernig hefur veiran haft áhrif á skartgripasölu hjá ykkur?

„Hún hefur vissulega haft áhrif, það hægðist verulega á sölunni eins og hjá mörgum. Við höfum samt lagt áherslu á það hjá okkur á Skólavörðustígnum að breyta afgreiðslutímum ekki og halda starfseminni áfram eins og venjulega og bjóða bara ennþá betri þjónustu. Íslendingar hafa nýtt sér vefverslunina í meira mæli en áður en núna er miðbærinn sannarlega lifnaður við, fólk er mætt í bæinn og stemningin yndisleg hérna! Það er svo jólalegt, allt í jólaskrauti og svo fallegt veður og góð stemning. Enda er hvergi öruggara og betra að kaupa jólagjafirnar en undir berum himni í fjölbreyttu úrvali af verslunum.“

Eftir hverju sækist fólk?

„Í skartgripum sækist fólk eftir persónulegum hlutum held ég, einhverju sem það tengir við. Allar Orrifinn-skartgripalínurnar segja sögu og tákna eitthvað ákveðið, það gefur gripunum meira gildi að fólk finni fyrir meiningunni á bak við þá. Einnig held ég að fólk sækist eftir hversdagslegu skarti, ekki skartgripum sem það getur bara notað á árshátíðinni heldur gripum sem þú setur á þig daglega.“

Förðunarmeistarinn Ísak Freyr farðaði Helgu fyrir myndatökuna.
Förðunarmeistarinn Ísak Freyr farðaði Helgu fyrir myndatökuna. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Á hvað leggið þið áherslu?

„Við leggjum fyrst og fremst áherslu á úrval gripa sem eru hannaðir af ástríðu, það skiptir mestu að ástríðan okkar skili sér alla leið til kúnnans. Við leggjum líka mikið upp úr því að bjóða uppá „unisex“ skartgripi. Okkur fannst vanta karlmannsskartgripi á markaðinn þegar við byrjuðum og við trúum að höfum lagt okkar af mörkum við að fylla upp í það skarð. Allavega hefur aukist mjög hversu mikið karlar versla fyrir sig og verslað er fyrir þá.“

Hvernig verða jólin hjá ykkur fjölskyldunni?

„Í ár eru stóru jól sem þýðir að við erum með alla okkar syni samankomna, fimm talsins. Það verða sannkölluð barnajól, mikil spenna og fjör. Við reynum svo að slappa bara af eftir vinnutörnina, fara út í snjóinn og vonandi hitta sem mest þá sem tilheyra manns jólakúlu og njóta þess að vita að þetta erfiða ár er að renna sitt skeið.“

Er eitthvað sem þig dreymir um í jólapakkann?

„Ekkert nema rólegheit og faðmur fjölskyldunnar. Ég óska þess heitast að við sem samfélag verðum betri í því að njóta og vanda okkur, mig langar allavega að verða klárari í því, tíminn líður svo hratt.“

Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir
Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir
mbl.is