Lífið leiddi Agnesi áfram og allt small 2019

Agnes Björgvinsdóttir er 22 ára ára förðunarfræðingur sem hefur verið að gera það gott á Instagram. Hún er í meistaranámi í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri til að ná sér í kennsluréttindi. Samhliða náminu í HÍ tók hún diplómanám hjá Makeupstudio Hörpu Kára og útskrifaðist sem förðunarfræðingur árið 2019. 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða förðunarfræðingur?

„Ég hef alltaf haft áhuga á snyrtivörum en kunni samt ekkert á þær fyrr en í menntaskóla. Þá fór ég aðeins að prófa mig áfram og eyddi klukkutímum inni á baði að horfa á YouTube og svo seinna meir Instagram. Ég byrjaði að fá spurningar frá fólkinu í kringum mig hvort ég ætlaði ekki að drífa mig bara og læra förðunarfræðinginn en mér leist ekkert á það þá.

Það var svo ekki fyrr en 2018 þegar Harpa Kára opnaði nýjan skóla, Makeupstudio Hörpu Kára, að ég fór að velta þessu fyrir mér. Ég fylgdist með fyrsta námskeiðinu í gegnum Instagram og sendi Hörpu á endanum skilaboð á milli jóla og nýárs þegar það voru 10 dagar í næsta námskeið og hún segir mér að það sé eitt laust pláss í kvöldhóp! Ég lét ekki segja mér það tvisvar og skráði mig. Ég útskrifast svo með diplómu í mars 2019 en þá var ég einmitt á öðru árinu mínu í grunnnáminu í HÍ.

Það skemmtilega við þetta allt saman er að þótt ég hafi skráð mig á námskeið þá ætlaði ég aldrei að fara að vinna við þetta. Í dag starfa ég bæði sjálfstætt sem förðunarfræðingur og vinn í gegnum Instagram. Ég sé um að gera efni fyrir Beautybox-netverslunina en er einnig að kenna förðunarvaláfanga í grunnskólum í unglingadeild ásamt því að ég held úti miðlinum Byagnesbjörgvins á Instagram þar sem ég er reglulega með sýnikennslu og sýni örlítið frá hinu og þessu en ég stofnaði það Instagram einmitt í förðunarnáminu. Ég hefði því aldrei verið á þeim stað sem ég er í dag hefði ég ekki tekið skyndiákvörðun um að skrá mig á námskeiðið hjá Hörpu,“ segir Agnes. 

Hvernig finnst þér helstu straumar og stefnur vera í förðun akkúrat núna? Og hvað er mest áberandi?

„Í dag er mikið um kremvörur og lítið púður, fluffy og „soap brows“ eru mjög áberandi og kinnalitur og meiri kinnalitur. Við erum að sjá mjög náttúrulegar farðanir en það þýðir þó ekki endilega færri vörur, eða að það sé auðveldara að ná henni fram heldur en þessari týpísku „glam“ förðun.

Ég spái reyndar lítið í því sem er svona trend hverju sinni, sumt hreinlega fer mér ekki og annað höfðar ekki til mín og þá nær það ekki lengra. Svo er líka bara hægt að fá innblástur frá svo mörgum og af mörgum stöðum. Ég elska að fylgjast með fólki sem er að gera skemmtilega og áhugaverða hluti og taka til mín það sem við á hvort sem það er í förðun, tísku eða einhverju allt öðru. Það er svo gott og nauðsynlegt fyrir alla að geta tekið til sín allt það jákvæða og lært af öðrum og gert betur þar sem við á. Förðun er áhugasvið þar sem þú ert alltaf að læra eitthvað nýtt og það eru stöðugt að koma nýjar og spennandi vörur eða trend,“ segir hún.

Hvernig viltu hafa áferðina á húðinni?

„Ég nota eins lítið púður og ég kemst upp með og allan þann ljóma sem ég get. Ég vil frekar vera með „dewy“ húð heldur en með púðurkennda áferð á húðinni. Púðrið sest svo mikið í fínar línur og gerir okkur í raun ekkert gott. Ég mæli með að prófa að nota minni bursta í púðurvörur og fikra sig svoleiðis áfram. Ég held að margir noti meira púður en þeir þurfa.“

Ertu að skyggja andlitið mikið eða er það búið?

„Ég skyggi mitt andlit alltaf en það sem hefur kannski helst breyst er hvernig og hvar við skyggjum og með hverju. Í dag nota ég alltaf blautar skyggingarvörur, til dæmis krem og stift-vörur í fljótandi formi og svo kannski örlítið púður yfir ef þess þarf. Svo er ég til dæmis farin að setja kinnalit á nánast alla sömu staði og ég skyggi – kinnbein aðeins upp á enni og smá á nefið. Vel skyggt andlit setur svo mikinn svip á förðunina en það er eitt af mínum uppáhalds að gera þegar ég er að farða mig eða aðra.“

Hvað um augabrúnir. Hverju mælir þú með svo þær verði alveg upp á tíu?

„Ég er alveg á því að minna mótaðar augabrúnir og meira fluffy og bústnar augabrúnir séu málið. Ég reyni að fylla sem minnst inn í þær og greiði vel úr þeim eða geri svokallaðar „soap brows“. Mér finnst best að bleyta upp í Mango-sápustykki frá Body Shop og greiða svo brúnirnar upp og móta þær áður en ég fylli inn í þær, en stundum læt ég þó sápuna bara duga. Uppáhaldsaugabrúnavaran mín er Brow Blade frá Urban Decay en hún er bæði með blýanti og örmjóum túss sem hægt er að búa til hár með þar sem þarf.“

Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?

„Það kemur kannski mörgum að óvart en ég er oftar ómáluð heldur en máluð. Ég mála mig alls ekki alla daga en þegar ég farða mig svona hversdags er það alltaf uppáhaldsfarðinn minn frá Pharmaceris, Shiseido-hyljari, kremskygging frá Charlotte Tilburry, Shiseido-augnhárabrettari og góður maskari. Mögulega svo smá púður hér og þar fer eftir því hvað ég er að fara að gera. Upp á síðkastið hef ég verið að prófa nýjan maskara frá LANCÔME í Idole-línunni og verð að fá að mæla með honum. Ég er týpan sem var búin að vera með sama maskarann í mörg ár og hélt ég myndi aldrei skipta, en ég hef ekki lagt hann frá mér síðan ég fékk hann um miðjan janúar.“

Hver er þín uppáhaldssnyrtivara?

„Ótrúlegt en satt þá finnst mér erfitt að svara þessari spurningu. Shiseido-augnhárabrettarinn er eitthvað sem ég nota alla daga alltaf og mæli alltaf með og allir dásama. Ég held mikið upp á Charlotte Tilbury-vörurnar og á nokkrar uppáhalds frá henni til dæmis Hollywood Flawless Filter og Hollywood Contour Wand. Ég hef verið að panta vörurnar hennar inn á cultbeauty-síðunni. Uppáhaldsfarðinn minn og hyljari í augnablikinu eru Shiseido – Synchro Skin Self Refreshing-farðinn og hyljari úr sömu línunni í stíl. Annars veit ég fátt skemmtilegra en að prófa nýjar vörur og bera þær saman, ég rótera því mikið á milli og reyni að festa mig ekki við eina vöru, það er svo margt skemmtilegt og fallegt í boði.“

Hvað notar þú á hverjum degi?

„Ég er nýlega byrjuð að strjúka andlitið með köldum face halo á morgnana en ég mæli með að kynna sér Face Halo-vörunar, þær fást á Beautybox.is. Það er eitthvað svo frískandi við það og kemur manni af stað. Næst nota ég hreinsigel, tóner og rakakrem frá Pharmaceris en ég hef notað vörunar frá þeim í mörg ár og þreytist aldrei á að mæla með þeim. Svo að lokum er það sólarvörn, allan ársins hring alla daga alltaf.“

View this post on Instagram

A post shared by Agnes (@agnesbjorgvins)mbl.is