Klæddu þig eins og konungborið fólk

Elísabet ll Bretlandsdrottning og Meghan, hertogaynja af Sussex, kunna að …
Elísabet ll Bretlandsdrottning og Meghan, hertogaynja af Sussex, kunna að klæða sig upp á í falleg snið og huggulega liti. mbl.is/AFP

Það er áhugavert að fylgjast með fatnaði meðlima konungsfjölskyldna víða um heim. Þótt kóngafólkið klæði sig alls konar þá er eins og konurnar séu með óskráðar reglur og tísku sem gaman er að spá í. 

Ef þig langar að klæða þig upp á eins og prinsessa eða drottning er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

Kjólar með mittislínu

Það sem einkennir kjóla þeirra sem tilheyra kóngafólkinu er að þeir ná vanalega niður fyrir hné og eru með aðsniðnu mitti. Sniðið er þannig að það er skorið í mittinu, sem dregur athyglina að fögrum línum líkamans. Pilsið er annaðhvort skásniðið og þá aðeins víðara eftir því sem neðar dregur eða það er vandlega klæðskorið og sýnir langar línur mjaðma og læra. 

Stuttar ermar

Eitt af því sem gefur vísbendingu um að konur hafi tíma fyrir sig er þegar þær komast í ræktina. Hefurðu tekið eftir því hvað kóngafólkið er í góðu formi? Flestir kjólar eru með stuttum ermum eða án erma og skipta þá upphandleggir kvennanna hvað mestu máli. 

Litir

Konur sem tilheyra kóngafólkinu eru vanalega aldrei klæddar í svart. Þær eru í ljósum kjólum eða í kjólum í alls konar litum. Það þykir einstaklega viðeigandi að klæðast bláum kjól þótt nú megi sjá aðeins meira af mynstri og alls konar litum. 

Efni

Til að líta út fyrir að vera konungborinn skiptir meira máli að kaupa eina vandaða flík en margar ódýrar. Fallegir ullarkjólar úr kasmírblöndu, silkikjólar og vönduð efni er það sem leita á eftir ef líta á út eins og kóngafólkið. 

Skartgripir

Kóngafólkið er vanalega með mjög pena skartgripi og þá úr demöntum eða perlum. Það þykir ekki viðeigandi sem dæmi að vera með stóra skartgripi dags daglega þegar kóngafólkið stígur út fyrir heimili sitt. Nokkrum sinnum á ári eru fágætir stórir skartgripir teknir upp úr skríninu en eftir því sem almenningur er farinn að bera stærra skart þeim mun minna hefur skartið hjá kóngafólkinu orðið. 

Skór

Konur sem vilja klæða sig upp á eins og drottningar ættu alltaf að huga að skófatnaði sínum. Klassískir einfaldir skór með háum hælum eru vinsælir hjá konum innan konungsfjölskyldna núna. Þeir eru vanalega ljósir á litinn eða í jarðlitum og lengja fæturna í stað þess að vera hluti af stíl kjólsins. 

Förðun

Ef þú vilt vera eins og konungborin þá berðu á þig lítinn farða. Aðalmálið er að huga vel að útliti húðarinnar og vera með vel snyrtar augabrúnir. Augnskuggar eru mjög náttúrulegir og augnahárin látin búa til dramatíkina í útlitinu. Varirnar mega vera rauðar eða ljósar og það sem mestu máli skiptir er að farðinn sé tóninum ljósari á andlitinu en á líkamanum sjálfum. 

Hár

Til að vera með konunglegt hár skiptir öllu máli að fara í snyrtingu reglulega. Að kaupa góða djúpnæringu og láta setja glansskol í hárið reglulega. Allar síddir eru í tísku um þessar mundir hjá kóngafólkinu, en hárið skal vera vel blásið og í sídd sem þykkt hársins ræður við. Varast ber alla nýjustu hártísku og liturinn þarf að vera eins eðlilegur og hugsast getur. Hver man ekki eftir dásamlegu hári Díönu prinsessu?

mbl.is