Eldri konur eiga ekki að verða ósýnilegar

Denise Boomkens vill með myndum sínum veita eldri konum með …
Denise Boomkens vill með myndum sínum veita eldri konum með stíl meiri athygli og hvetja aðrar til þess að taka pláss. Skjáskot/Instagram

Denise Boomkens er fyrrverandi fyrirsæta og ljósmyndari sem hefur vakið mikla athygli fyrir að fanga fegurð eldri kvenna á samfélagsmiðlum. Hún segir það mikilvægt að eldri konur séu óhræddar við að brjóta reglurnar þegar kemur að fatastíl. 

Boomkens heldur úti Instagram reikning (and.bloom) þar sem hún birtir myndir af konum vel yfir fertugt sem bera aldurinn einstaklega vel. Við myndirnar er texti sem fjallar um viðhorf kvennanna til lífsins og aldurs. 

Móðir Boomkens var henni mikill innblástur. „Hún var nærtækasta dæmið um það að eldast vel. Líf hennar var ekki alltaf auðvelt en hún hefur alltaf mætt mótvindi með rauðum varalit.“

Instagram reikningurinn sló í gegn og ekki leið á löngu þar til konur fóru að leita til hennar. „Eina skilyrðið var að þær væru að eldast á mjög jákvæðan hátt og endurspegla aldur sinn vel. Ég kýs að mynda konur sem kjósa að eldast á náttúrulegan hátt. Hins vegar væri dónalegt af mér að spyrja þær beint út hvort þær hefðu farið í aðgerðir.“

Engin ein rétt leið til að klæðast

„Ég trúi ekki að það sé til ein rétt leið að klæðast þegar maður eldist. Ég held að maður eigi að miða út frá líkamanum og hvað hann hefur upp á að bjóða. Ef ákveðinn stíll fer þér vel og gerir þig ánægða þá áttu að klæðast honum.“ 

Eldri konur eiga ekki að vera ósýnilegar

„Með þessu framtaki vil ég sýna fram á að það eru engin takmörk fyrir því hvernig við klæðumst þegar við eldumst. Það virðist ríkja sú hugmynd að eldri konur eigi að vera ósýnilegar og klæða sig í takt við það og stíga til hliðar. Þessu er ég ekki sammála,“ segir Boomkens.

Boomkens ráðleggur konum að taka aðrar konur sér til fyrirmyndar. „Finndu þinn hóp kvenna sem þú lítur upp til og komstu að því hvernig þær fara að,“ en ein af hennar fyrirmyndum er Iris Apfel. „Þetta snýst ekki um að vera kynþokkafullur eða smart, heldur að fara ekki eftir reglunum.“

Í myndatökunum leggur hún áherslu á að konurnar séu lítið farðaðar. „Þessi hefðbundni farði og andlitspúður virkar ekki vel á eldri húð þar sem það á til að festast í línurnar. Ég kýs heldur að hafa húðina bera og leggja áherslu á varir og nota augnblýant í lit sem dregur fram augnlitinn.“

Að fagna aldrinum

„Það að eldast snýst um að maður sé á hreyfingu. Frá einum stað til annars. Við breytumst ekki bara í útliti heldur líka innra með okkur. Það að fagna því hvar þú ert staddur í þessu ferli getur kallað fram raunverulega hamingju. Það veitir ekki sams konar hamingju að reyna stöðugt að halda í það sem maður var fyrir tuttugu árum. Það er óskhyggja. Ég reyni að líta sem best út en það að horfast í augu við það að maður er að eldast er órjúfanlegur hluti af því.“

Þessi er 76 ára og hafði alltaf dreymt um að …
Þessi er 76 ára og hafði alltaf dreymt um að gerast fyrirsæta. Hún ætlar sér enn að láta drauminn rætast. Skjáskot/Instagram
Catherine er 68 ára og lætur ekki segja sér hverju …
Catherine er 68 ára og lætur ekki segja sér hverju hún klæðist. Skjáskot/Instagram
Renée er 74 ára og fer í ískalda sturtu á …
Renée er 74 ára og fer í ískalda sturtu á hverjum morgni auk þess sem hún stundar golf og aðra líkamsrækt undir berum himni. Skjáskot/Instagram


mbl.is