Í 45 ára gömlum kjól af tengdamóður sinni

Ljósmynd/Spænska konungshöllin

Letizia Spánardrottning er ein best klædda kona veraldar. Hún er þó ekki of fín til þess að fá lánuð föt frá tengdamóður sinni. Í vikunni klæddist hún kjól sem Sofía, fyrrverandi drottning, klæddist fyrir tæpum 45 árum. 

Letizia klæddist kjólnum við hátíðlega móttöku í konungshöllinni í Madríd. Það var árið 1977 sem kjóllinn sást fyrst. Tengdaforeldrar hennar, Jóhann Karl þáverandi Spánarkonungur og Sofía drottning hans, voru í opinberri heimsókn í Þýskalandi þegar Sofía klæddist kjólnum að því fram kemur á vef People.  

Kjóllinn fallegi er frá ítalska tískuhúsinu Valentino. Grænt sítt pils passar fullkomlega við síðerma blómablússu. Ekki er óalgengt að sjá svipaða bróderingu í gegnsæ efni á tískusýningum hátískuhúsanna. 

Kjóllinn frá Valentino fór drottningunni vel.
Kjóllinn frá Valentino fór drottningunni vel. Ljósmynd/Spænska konungshöllin

Meira er um að konur í evrópskum konungsfjölskyldum endurnýti gamlar gersemar frá eldri kynslóðum. Fyrir nokkrum árum stal Viktoría krónprinsessa senunni í veislu í tilefni afhendingu Nóbelsverðlaunanna í gömlum kjól af móður sinni. Einnig valdi Beatrice prinsessa að endurnýta gamlan kjól Elísabetar drottningar þegar hún gifti sig árið 2020. 

mbl.is