Þegar Björg kom og reddaði málunum

Kári Sverriss

Einhvern veginn var ég á því að farða mig sjálf fyrir eigin giftingu en þegar stóri dagurinn nálgaðist guggnaði ég á því sem betur fer. Þá kom Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarmeistari YSL, eins og frelsandi engill og bjargaði málunum. 

Björg fékk engin önnur fyrirmæli hvað varðar förðunina en að reyna að fegra viðfangsefnið eins og hægt væri án þess að brúðurin yrði eins og dragdrottning. Hún mælti með því að brúðurin setti á sig rakamaska kvöldið áður og færi snemma að sofa. Þeim fyrirmælum var að sjálfsögðu fylgt en um hálfu ári fyrir giftinguna fór brúðurin í átak að þvo andlitið kvölds og morgna og bera alltaf á sig serum fyrir svefninn. 

Björg mætti heim til okkar um morguninn með allt sitt hafurtask og var með okkur fjölskyldunni á meðan við vorum að gera okkur tilbúin. Þegar hún var mætt þakkaði ég almættinu fyrir að hún væri komin að bjarga málunum. Ég hefði örugglega klúðrað þessu öllu því stressið yfirtók allt. Með sinni notalegu nærveru náði hún að róa mig niður og alla hina í leiðinni. Ég var búin að blása á mér hárið og krulla það áður en hún byrjaði að farða.

Hún byrjaði á því að setja Touche Éclat Blur Primer á andlitið og svo setti hún Pure Shots Lines frá YSL sem veitir mikinn raka. Eftir það setti hún All Hours-farða frá YSL, All Hours-hyljara frá sama merki og líka púðrið All Hours translucent.

Þá var komið að augnförðuninni. Björg skyggði augnlokin með French Nude 01-augnskuggapallettunni frá Lancôme en hún inniheldur fimm liti sem eru frá ljósbleikum út í dökkbrúnan. Með litunum náði hún að ramma augun inn og stækka þau svolítið með réttum trixum. Hún setti brúnan augnblýant frá YSL í kringum augun en blýanturinn heitir Crushliner og er númer 2.

Fyrir brúðkaupið spurði ég Björgu hvort ég ætti að gera eitthvað við augabrúnirnar, láta lita þær og plokka, en hún harðbannaði það. Hún vildi geta mótað þær sjálf á náttúrulegan hátt og vildi koma í veg fyrir að þær yrðu of dökkar og grimmilegar. Hún notaði Brow Blade frá Urban Decay sem er frábær blýantur sem auðvelt er að nota bæði dagsdaglega og á hátíðarstundum. Til að toppa augnförðunina setti hún MVEFC waterproof-maskarann frá YSL. Brúðurin heimtaði að fá nokkur gerviaugnhár og varð Björg við þeirri ósk.

Mér finnst alltaf fallegt að hafa svolítinn kinnalit og því setti Björg Couture-kinnalitinn frá YSL í kinnarnar. Þessi litur er númer sjö og gefur fallega áferð án þess að brúðurin yrði eins og Sindy-dúkka. Svo skyggði hún andlitið með Beached Bronzer Bronzed frá Urban Decay. Mér finnst alltaf fallegt að hafa örlítið sólarpúður í andlitinu og tala nú ekki um á fallegum sumardegi eins og þessum.

Næst var komið að vörunum og mótaði Björg varirnar með Lip Styler 70 frá YSL. Svo setti hún varalitinn Rouge Pur Couture 70. Nú var nánast allt tilbúið. Það vantaði bara punktinn yfir i-ið, en það var að úða All Nighter setting-sprayinu frá Urban Decay yfir andlitið. Þess má geta að förðunin haggaðist ekki allan daginn og langt fram á kvöld.

Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegur förðunarmeistari YSL.
Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegur förðunarmeistari YSL.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »