„Ég er ekki mikið fyrir það að monta mig“

Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir segir það hafa verið stórt skref fyrir …
Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir segir það hafa verið stórt skref fyrir hana að sýna fötin sem hún hefur verið að hanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir hefur síðustu ár prjónað og heklað flíkur sem eru ólíkar öllu öðru. Hún notast ekki við uppskriftir og hannar fötin eftir eigin höfði. Nýverið byrjaði hún að selja fötin sem hún gerir á Instagram en hún aðhyllist svokallaða „slow fashion“ bylgju og hver flík sem hún gerir er bæði töff og umhverfisvæn. 

„Ég byrjaði að hekla þegar ég sá tösku á netinu sem mig langaði að eignast. Þá fann ég þykkt garn í geymslunni og fór eftir YouTube myndbandi. Eftir það hef ég ekki hætt að hekla og færði mig yfir í prjón síðasta haust þegar ég áttaði mig á því hvað það fór mikið garn í heklið, en heklaðar flíkur krefjast meira garns,“ segir Alfa. 

Saumaði sér kjóla fyrir menntaskólaböll

Alfa er með BS-gráðu í sálfræði og vinnur sem ráðgjafi á geðsviði Landspítala. Hún er ekki með neina menntun í fatahönnun eða handavinnu en langamma hennar kenndi henni að prjóna og amma hennar kenndi henni að hekla. 

„Ég var aðeins í því að sauma mér kjóla fyrir menntaskólaböll þar sem ég átti ekki mikið á milli handana. Ég myndi ekki segja að ég sé með mikinn grunn í fatahönnun fyrir utan einn fatahönnunaráfanga í framhaldskóla, annars hef ég alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og að skapa eitthvað sjálf. Allar flíkurnar eru gerðar fríhendis, sem þýðir að ég fer ekki eftir uppskriftum eða hermi eftir einhverju sem ég sé á netinu eða annars staðar. Það eina sem ég hef í rauninni lært er grunnurinn, þá hvernig saum ég vil gera og þá hef ég helst notað YouTube. Ég hef í rauninni ekki þolinmæði til að fylgja uppskriftum og dáist af fólki sem getur það,“ segir Alfa.

Þegar Alfa var í menntaskóla saumaði hún stundum á sig …
Þegar Alfa var í menntaskóla saumaði hún stundum á sig kjóla ef hún átti ekki fyrir einhverjum flottum kjól úti í búð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Út fyrir kassann

Alfa byrjaði með Instagram-síðuna Alfa's Things núna í apríl og hafa viðtökurnar verið fram úr björtustu væntingum. Þar selur hún peysur, töskur, ermar, húfur, lambhúshettur og fleira. „Ég hef fengið mikið hrós og selt meira en helminginn af því sem ég hef sett á síðuna sem er bara frábært,“ segir Alfa. 

Hún segist hafa verið mjög feimin við að stofna Instagram-síðu utan um handavinnuna sína en að það sé gott að fara út fyrir kassann. 

„En það hefur hjálpað mér gríðarlega mikið að hafa vinkonu mína Herborgu Lúðvíksdóttur með mér uppbyggingu síðunnar. Hún tekur myndirnar ogstíliserar „outfit“ fyrir myndatökurnar og er minn helsti aðdáandi í þessu skemmtilega verkefni. Ég var auðvitað mjög spennt fyrir þessu en líka hrædd þar sem mér finnst þetta gera mig berskjaldaða á einhvern hátt. Ég er ekki mikið fyrir það að monta mig eða vera í sviðsljósinu svo þetta er mjög nýtt fyrir mér,“ segir Alfa. 

Litir, garn og hönnun fara eftir því hvaða skapi Alfa …
Litir, garn og hönnun fara eftir því hvaða skapi Alfa er í hverju sinni. Eggert Jóhannesson

Engin flík er eins

Til að byrja með fór Alfa að hanna á sig flíkur af því hana langaði til að eiga föt sem enginn annar átti. Hún ákvað svo að byrja að selja þær því hún hafði ekki tilefni til að klæðast þeim öllum. „Flíkurnar mínar eru gerðar út frá því sem mér finnst vera flott,“ segir Alfa. 

„Ef þú kaupir flík frá mérgeturðu verið viss um að þú mætir engum öðrum í eins flík. Ég reyni líka að nýta allt garn sem ég á ogþess vegna koma flíkur inn á milli sem eru allgjörlega handahófskenndar í litum og áferð. Þessar flíkur eru gerðar úr garni sem ég hef ekki klárað og bundið saman í hnykil, þegar hnykillinn er orðin ákveðið stór þá geri ég eitthvað úr honum. Ég reyni að einblína á að gera hverja flík vel og úr garni sem fer ekki illa með umhverfið,“ segir Alfa og bendir á að hún sé ekki framleiðsluvél. 

Hún byrjaði aftur að hekla þegar hún sá tösku sem …
Hún byrjaði aftur að hekla þegar hún sá tösku sem hana langaði í. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún styðst við „slow fashion“ hugmyndafræðina og fer ekki eftir tískutrendum heldur því sem henni finnst raunhæft að nota og eiga í langan tíma. Svo kaupir hún reglulega garn í Rauða krossinum í stað þess að kaupa glænýtt garn úti í búð. 

„Slow fashion“ hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum sem einskonar andsvar við hinni svokölluðu „fast fashion“ sem einkennir stærstu tískuvörumerki heims. Það á við fyrirtæki sem framleiða gríðarlegt magn af fötum og eru þau gjarnan framleidd í fátækari ríkjum heims þar sem starfsfólk fær lítið greitt fyrir vinnu sína.

Innblásturinn sækir hún hvaðan sem er úr umhverfi sínu. Hún skoðarInstagram og þegar hún velur liti, garn og hönnun styðst hún við tilfinningar sínar. „Ef ég er í stuði fyrir liti verður flíkin litrík, þetta getur farið eftir árstíðum, gróðri, landslagi, fallega lituðu garni og mörgu öðru.“

Sumar peysurnar geta verið mjög litríkar.
Sumar peysurnar geta verið mjög litríkar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fötin sem hún hannar mætti flokka sem „statement“ föt og þá dregur hún allan fókus af öðru sem þú ert í. 

„Ég sé fyrir mér að halda áfram að prjóna og hekla á meðan ég hef gaman af þessu og vona að fólk haldi áfram að sýna áhuga. Mér finnst persónulega gaman að ganga í flíkum sem eru einstakar og ekki fast fashion. Ég held að ég sé ekki ein um þetta og það virðist vera vitundavakning hjá ungu fólki að versla minna við stórar fatakeðjur sem hugsa ekki um umhverfið eða gæði í því sem selt er. Ég skil samt sem áður vel að fólk geri það þar sem föt geta verið dýr og ég reyni því að vera eins sanngjörn og ég get í verðlagningu. Ég er ekki að þessu til að græða sem mestan pening heldur aðeins því ég hef svo gaman af þessu,“ segir Alfa. 

Alfa hannar meðal annars veski.
Alfa hannar meðal annars veski. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is