Sagan af brúðarkjólnum

Ljósmynd/Kári Sverriss

Það er hægt að fara í ótal hringi í kollinum á sér þegar val á brúðarkjól er annars vegar. Möguleikarnir eru óþrjótandi en stundum tekur lífið óvænta stefnu. Sjálf var ég búin að kaupa brúðarkjól en á elleftu stundu fékk ég kjól að gjöf sem var miklu betri en sá sem fjárfest hafði verið í.

Það eina sem ég vissi þegar ég valdi mér brúðarkjól var að ég vildi eiga kjólinn – ekki leigja hann. Brúðkaupið var búið að vera til umræðu í nokkur ár. Fyrir um ári ákváðum við að ganga í hjónaband á sama degi og sambandið hófst nokkrum árum áður. Þegar búið var að ákveða dagsetningu þurfti að finna föt og skipuleggja ýmislegt fleira. Þetta var aðeins einfaldara fyrir brúðgumann því hann fór einfaldlega inn í fataskáp og sótti smóking sem hann hafði klæðst þegar hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1993. Hann neyddist reyndar til að kaupa nýja skyrtu því þessi gamla var orðin svolítið gul og lúin en annars var hann bara eins og Ken beint úr kassanum.

Brúðurin var aðeins að vandræðast með þetta. Hún hafði mátað kjól nokkrum árum áður en ekki keypt því það var ekki búið að ákveða dagsetningu á þeim tíma. Í nokkra mánuði hékk brúðurin yfir vef breska merkisins Needle and Thread sem framleiðir dásamlega fallega kjóla sem eru svolítið rómantískir en geta líka verið svolítið glitrandi. Kjóllinn átti helst að vera með ermum og ekki alveg upp í háls. Þegar þessi leit hafði ekki skilað árangri endaði brúðurin á að kaupa kjól frá breska merkinu LK Bennet. Þessi kjóll hangir enn þá inni í skáp ónotaður.

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir.
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. mbl.is/Rósa Braga

Síðasta sumar hitti brúðurin Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur, eða Tótu eins og hún er kölluð, í boði hjá hjartans vinkonu okkar. Tóta er einn af færustu búningahönnuðum landsins og listamaður. Þegar brúðkaupið barst í tal sagði hún: „Marta, þú ert að fara að gifta þig. Ég er með kjól handa þér,“ sagði Tóta og það lifnaði yfir henni. Brúðurin vissi ekki alveg hvernig hún ætti að taka þessu enda ekki á hverjum degi sem kona gefur annarri konu brúðarkjól. Brúðurin ákvað þó að treysta og taka fagnandi á móti gjöfinni. Stuttu síðar fór brúðurin heim til Tótu á hennar einstaka heimili í miðbæ Reykjavíkur. Það er alltaf upplifun að koma heim til hennar og ekki var upplifunin síðri þegar brúðurin kom auga á kjólinn sem hékk á hurð inn af eldhúsinu. Hjartað tók aukakipp. Þarna var hann lifandi kominn.

Hönnuðurinn Donna Karan.
Hönnuðurinn Donna Karan. AFP

Brúðurin vippaði sér úr fötunum og klæddi sig í kjólinn í snatri og viti menn, hann smellpassaði. Var eins og hann hefði verið sérsaumaður. Kjóllinn hafði verið í eigu búningahönnuðarins lengi og er hannaður af ameríska hönnuðinum Donnu Karan. Hann er úr silki og er skáskorinn og fellur því vel þrátt fyrir að vera ekki með miklum sniðsaumum. Hálsmálið fellur fallega og er flegið án þess að vera of mikið. Það sem er skemmtilegt við Donnu Karan er að þegar brúðurin var unglingur að uppgötva heim hönnunar og tísku þá tók hún ástfóstri við Donnu Karan. Árið 1997 kom svo sjálf drottning tískunnar til Íslands í tengslum við risatískusýningu sem Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi stóð fyrir í flugskýli nokkru. Á þessari sýningu voru undirföt frá Joe Boxer sýnd af íslenskum fyrirsætum en sýningunni var sjónvarpað í Bandaríkjunum sem þótt mjög merkilegt. Eftir sýninguna var teiti á skemmtistað þotuliðs þess tíma sem kallaðist Astro og þar var Donna Karan mætt og líka unglingurinn (hvernig sem hann fór að því að komast inn). Að sjálfsögðu vatt þessi unglingur sér upp að Donnu Karan til að segja henni að hún væri flottust. Svona eins og unglingar gera! Á þessu augnabliki hefði þessum unglingi aldrei dottið í hug að hann ætti eftir að klæðast kjól úr hennar smiðju 25 árum síðar. Og það á brúðkaupsdaginn. Á þeim tíma átti þessi unglingur varla fyrir samloku og alls ekki peninga til að kaupa hönnun Donnu Karan.

Þegar brúðurin var komin með þennan fagra kjól í hendurnar varð hún að fá slör við kjólinn – sem var aldrei inni í myndinni áður. Slörið þurfti að vera einfalt en samt stórt og sítt. Gæti hálfpartinn verið eins og kápa. Í taugaspennu endaði brúðurin í versluninni Loforð, sem er töfraheimur fyrir brjálaðar brúðir og ættingja þeirra, og gekk út með slör sem smellpassaði. Bæði hvað lit og áferð varðar.

Núna hangir kjóllinn inni í skáp ásamt slörinu og á hverjum morgni verður brúðinni hlýtt í hjartanu þegar hún horfir á kjólinn og slörið. Þessu fylgja einstakar minningar sem ylja á hverjum degi.

Páll eiginmaður minn í smókingfötum sem hann klæddist þegar hann …
Páll eiginmaður minn í smókingfötum sem hann klæddist þegar hann útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Kári Sverriss
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »