„Ég hef verið með þessar tennur í 10 ár“

Chrissy Teigen.
Chrissy Teigen. mbl.is/Getty Images

Fyrirsætan Chrissy Teigen sver fyrir það að hafa látið eiga við tanngarðinn í munninum á sér nýlega. Reyndi hún að hrekja þær hugmyndir aðdáenda sinna á Instagram að munnsvipur hennar hefði tekið miklum breytingum undanfarið.

„Ég hef verið með þessar tennur í 10 ár,“ skrifaði Teigen í athugasemdahlutanum við myndafærslu sem hún birti á Instagram-reikngi sínum á dögunum. Margir aðdáendur hennar sögðust varla þekkja hana á myndinni vegna þess hve munnsvipurinn hefði breyst mikið. Á myndinni situr hún um borð í bát með son sinn á lærum sér en bæði eru þau skælbrosandi.

„Þú ert falleg. Af hverju ertu alltaf að láta breyta þér? Ég þekkti þig ekki á þessari mynd,“ skrifaði einn aðdáandi og voru margir á sama máli.

„Ég þekkti þig ekki,“ skrifaði annar. „Það er eitthvað öðruvísi við þig. Þú ert alltaf falleg en samt öðruvísi.“ Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.

Teigen er stödd í miðri hreiðurgerð þessa dagana þar sem hún og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn John Legend, eiga von á sínu þriðja barni. Tilkynntu þau um væntanlegan erfingja í síðustu viku. Hjónin hafa verið saman frá árinu 2006 en þau kynntust þegar þau unnu saman við tökur á tónlistarmyndbandi Legends. Sjö árum síðar gengu þau í hjónaband og héldu glæsilegt brúðkaup á Ítalíu.


 

mbl.is