Abel glímir við alvarleg veikindi

Abel Dhaira
Abel Dhaira mbl.is/Árni Sæberg

Abel Dhaira, aðalmarkvörður knattspyrnuliðs ÍBV, á við alvarleg veikindi að stríða og er óttast að jafnvel sé um krabbamein að ræða.

Þessi 28 ára gamli Úgandamaður, sem lék fyrst með ÍBV árið 2011, kom til Íslands á laugardaginn eftir að hafa glímt við veikindin í heimalandi sínu þar sem hann hefur dvalist eftir að síðustu leiktíð lauk.

„Abel er veikur, það er engin launung á því. Við ákváðum því að taka hann til Íslands og hann er undir læknishöndum og í rannsóknum þessa daga. Meira vitum við ekki í bili. Við bíðum eftir niðurstöðum úr þessum rannsóknum,“ sagði Bjarni Jóhannsson, sem tók við þjálfun ÍBV í október. Aðspurður hvort um krabbamein gæti verið að ræða sagði Bjarni það ekki ljóst á þessari stundu.

„Maður veit aldrei. Þetta er kornungur maður og maður vill ekki trúa því,“ sagði Bjarni.

„Því miður höfum við ekki fengið nægilega miklar upplýsingar frá Úganda. Það er ekkert samræmi í einu né neinu og við vitum því lítið um hvað hefur gerst. En veikindin eru þess eðlis að við ákváðum að taka hann til landsins, til að vonandi hjálpa honum. Maður veit svo sem ekki hvort heilbrigðiskerfið er betra hérna en í Úganda, en við stóluðum á að það væri heldur skárra hér,“ sagði Bjarni.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert