Held að við getum fundið lausn

Tobias Salquist.
Tobias Salquist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kemur í ljós innan fárra daga hvort úrvalsdeildarlið FH nái að krækja í miðvörðinn Tobias Salquist frá danska úrvalsdeildarliðinu Silkeborg.

Salquist, sem er danskur miðvörður, var á láni hjá Fjölni í fyrra þar sem hann lék 21 leik í Pepsi-deildinni en lánssamningur er ekki í boði í þetta sinn að sögn Danans.

„Þeir verða að kaupa mig ef þeir vilja fá mig og ég veit að þeir hafa gert Silkeborg tilboð. Ég er þriðja val sem miðvörður í Silkeborg. Núna þurfum við að tryggja það að liðið verði áfram í efstu deild. Vonandi getum við gert það á sunnudag. Takist það þá held ég að við getum fundið lausn á þessu,” sagði Salquist við mbl.is í dag en forráðamenn Silkeborg hafa ekki svarað Hafnarfjarðarliðinu.

„Vonandi getur orðið úr þessu svo ég geti fengið að spila einhverja leiki,” sagði Salquist en hann hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum í dönsku deildinni.

„Ég er opinn fyrir fyrir mörgu, en ég vil spila og veit að ég get fengið að spila hjá FH og að liðið vill mig. Það yrði gott tækifæri fyrir mig að fá að spila hjá stærsta liðinu á Íslandi,” sagði Salquist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka