Það var annað hvort 98 eða 99

Indriði Sigurðsson í baráttu við Guðjón Baldvinsson.
Indriði Sigurðsson í baráttu við Guðjón Baldvinsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við spiluðum við þá í vetur og þetta er fínt lið. Þeir slógu KA út sannfærandi miðað við það sem ég heyrði og þetta verður klárlega erfiður leikur," sagði Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR eftir að liðið dróst gegn ÍR í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í dag.

Indriði segir KR-inga alls ekki vanmeta ÍR en KR sló Leikni F. út í síðustu umferð. 

„Fótbolti er eina íþróttin þar sem 3. deildarlið getur unnið úrvalsdeildarlið og við nálgumst þennan leik af mikilli alvöru og við ætlum að gera þetta faglega eins og á móti Leikni F. Það verður að vera sama upp á teningnum á móti ÍR, við munum alls ekki vanmeta þá."

Fyrirliðinn hefur ekki spilað á ÍR-velli síðan 1999 eða 1998, hann var ekki alveg viss. 

„Það var annað hvort 98 eða 99. Ég held við höfum unnið þann leik 1:0. Ég hef aldrei tapað á þessum velli og það er gaman að fara á velli sem við spilum ekki oft á."

Indriði er enn að jafna sig eftir meiðsli, en hann spilaði ekki í 32-liða úrslitum gegn Leikni F. 

„Ég var ekki með gegn Leikni F. vegna meiðsla en ég er allur að koma til og ég hef spilað síðustu tvo leiki í deildinni. Ég þarf að passa mig, maður er kominn á þann aldur að maður getur ekki verið með í öllu. Maður verður að velja og hafna," sagði Indriði að endingu. 

mbl.is