Landsliðið stelur erlendum fyrirsögnum

Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson fagna …
Hannes Þór Halldórsson, Kári Árnason og Birkir Már Sævarsson fagna sigrinum í kvöld. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er aftur farið að stela fyrirsögnum erlendra fjölmiðla eftir magnaðan 3:0 sigur liðsins á Tyrkjum þar í landi í kvöld. Íslenska liðið er komið í kjörstöðu í I-riðli og nægir að vinna Kósóvó á mánudag í lokaleik liðsins í undankeppninni til að komast á HM í Rússlandi.

Danska ríkisútvarpið minnir okkur á víkingaklappið í sinni fyrirsögn.

„HÚ! Ísland burstaði Tyrkland og er nálægt farmiða á HM“ sagði í frétt DR.

Sigur Íslands er fyrsta frétt á vef danska blaðsins Politiken sem tók skýra afstöðu í fyrrasumar um að halda með íslenska liðinu á EM í Frakklandi.

„Ísland er einfaldlega einum heimasigri frá því að tryggja sig inn á HM“ sagði á vef Politiken.

„Rugluð úrslit! Ísland er nánast komið beint á HM“ segir á vef BT.

„Ísland malaði Tyrki á útivelli” segir í Expressen í Svíþjóð.

„Ísland valtaði yfir Tyrki - næstum klárir til Rússlands“ sagði Verdens Gang í Noregi.

„Ísland tók risaskref í átt að lokakeppninni“ segir Guardian.

„Ísland færist nær fyrsta heimsmeistaramótinu“ segir á vef Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina