„Kaflaskil í mínu lífi“

Veigar Páll Gunnarsson
Veigar Páll Gunnarsson mbl.is/Golli

„Nú eru bara kaflaskil í lífi mínu. Ég ákvað ekki alls fyrir löngu að þetta væri bara komið gott sem leikmaður. Það var farið að hægjast á manni og þessi ungu strákar sem eru að spila í deildinni eru orðnir svo fljótir og hraustir,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson í samtali við mbl.is en hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og snúa sér að þjálfun.

Eins og fram kom á mbl.is hefur Veigar Páll verið ráðinn annar tveggja aðstoðarþjálfara karlaliðs Stjörnunnar og löngum ferli sem leikmaður er þar með lokið. Veigar Páll hóf sinn feril með meistaraflokki Stjörnunnar árið 1996 og hann lék sem atvinnumaður í mörg ár í Noregi og síðar Frakklandi en sneri aftur heim í Stjörnuna árið 2013. Hann varð Íslandsmeistari með Garðabæjarliðinu það ár en fyrir tímabilið í fyrra gekk hann í raðir FH. Áður hafði hampað tveimur Íslandsmeistaratitlinum með KR, 2002 og 2003 þar sem hann lék stórt hlutverk með vesturbæjarliðinu. Hann var síðan lánaður til liðs Víkings Reykjavíkur. Veigar lék 34 A-landsleiki á árunum 2001 til 2011 og skoraði í þeim sex mörk.

„Það hefur blundað í mér undanfarin ár að fara út í þjálfun. Ég vildi halda áfram að vera í boltanum en þá með öðrum formerkjum. Nú er það orðið að veruleika. Ég er búinn að vera í fótbolta af fullum krafti frá unga aldri og hef lært gríðarlega mikið á mínum ferli. Ég hef trú á sjálfum mér í starfi þjálfara og einhvern tíma verður maður að byrja. Og það er draumur að byrja í þessu starfi hjá uppeldisfélagi sínu. Ég bý nánast við hliðina á Stjörnuheimilinu og ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu.

Ég vona að við Jón Þór getum kryddað þetta aðeins og lagt okkar af mörkum til að koma Stjörnunni alla leið,“ sagði Veigar Páll en Stjarnan endaði í öðru sæti í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og spilar í Evrópudeildinni á komandi leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert