Við fögnum samkeppni

Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins.
Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins. AFP

Það var gott hljóð að vanda í Frey Alexanderssyni þjálfara kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar mbl.is náði tali af honum fyrir æfingu landsliðsins í Króatíu í dag en þar hefur liðið undirbúið sig fyrir leikinn á móti Slóveníu í undankeppni HM sem fram fer í Lendava í Slóveníu á morgun.

„Leikmenn eru til hópa í góðu standi og eru spenntir að byrja undankeppnina aftur,“ sagði Freyr í samtali við mbl.is.

Ísland lék síðast í undankeppninni á útivelli á móti Tékklandi í lok nóvember þar sem úrslitin urðu, 1:1, en þar áður hafði Íslendingar unnið frækinn 3:2 útisigur gegn Þjóðverjum og 8:0 sigur á móti Færeyingum á Laugardalsvellinum.

Er ekki hægt að setja þær kröfur á liðið að það vinni leikinn á morgun?

„Jú og við krefjumst þess að sjálfum okkur. Þó að við séum að spila á útivelli þá ætlum við að ná í þrjú stig og gera það sem þarf til að vinna hvort sem það verður fallegt eða ekki. Það er klárt mál að hæfileikarnir eru meiri í okkar liði heldur en Slóvena.

Við þurfum hins vegar að standa vaktina vel. Hugsa um okkur sjálf, passa upp á að allir hlutir verði í lagi og láta leikinn koma til okkar. Reynslan segir okkur að Ísland hefur einu sinni misstígið sig í leik á móti Slóveníu. Það er auðvitað svolítið síðan það gerðist. Leikmenni mínir vita af því þótt það séu fáir í þessum hópi sem tóku þátt í þeim leik,“ sagði Freyr.

Ísland mætir Slóveníu í undankeppni HM á morgun.
Ísland mætir Slóveníu í undankeppni HM á morgun. mbl.is/Golli

Freyr segist svona nokkurn veginn vera búinn að ákveða liðsuppstillinguna í leiknum á morgun.

„Það er jákvætt að við erum aftur komin með breidd fram á við og það er samkeppni um stöður sem er hrikalega mikilvægt. Við fögnum samkeppni og það er það sem íslenska landsliðið þarf að hafa til geta verið í fremstu röð. Við erum að nálgast þann styrk aftur. Það lítur þannig út að allir leikmenn séu klárir í slaginn.

Sandra markvörður er með löskuð liðbönd í ökklanum en hún getur spilað. Við munum samt ekki taka neina áhættu með hana. Hún verður til taks og við pössum upp á að gera ekkert verra en það er. Hún er okkur innan handar ef eitthvað kemur upp á,“ sagði Freyr Alexandersson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert