Keflavík og Fylkir með fullt hús

Keflavíkurkonur hafa byrjað tímabilið vel í 1. deildinni.
Keflavíkurkonur hafa byrjað tímabilið vel í 1. deildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir leikir fóru fram í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld, Inkasso-deildinni, en um voru að ræða fyrstu leiki 2. umferðar. Keflavík og Fylkir hrósuðu þá sigri og eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Keflavík fékk Fjölni í heimsókn og vann 2:1 sigur. Aníta Lind Daníelsdóttir kom Keflavík yfir og Mairead Fulton virtist vera að innsigla sigurinn á 84. mínútu. Mist Þormóðsdóttir Grönvold hleypti hins vegar spennu í leikinn með því að minnka muninn fyrir Fjölni þremur mínútum síðar og þar við sat, lokatölur 2:1 fyrir Keflavík.

Fylkir fékk Þrótt R. í heimsókn og fór með auðveldan 4:0 sigur af hólmi. Þær Margrét Björg Ástvaldsdóttir og Þóra Kristín Hreggviðsdóttir skoruðu sitt markið hvor auk þess sem Marija Radojicic skoraði tvö mörk, en staðan var 3:0 í hálfleik.

Fjölnir er án stiga en Þróttur er með þrjú stig eftir sigur í fyrstu umferðinni, einmitt gegn Fjölni. ÍA á möguleika á því að jafna við Keflavík og Fylki á toppnum með sigri gegn ÍR á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert