Draumi líkast fyrir Samúel

Samúel Kári Friðjónsson í Laugardalnum í dag.
Samúel Kári Friðjónsson í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert

Samúel Kári Friðjónsson er einn þeirra leikmanna í HM-hópnum sem íslenskir knattspyrnuunnendur þekkja einna minnst til. Mbl.is ræddi stuttlega við Samúel á landsliðsæfingu í morgun.

„Ég var himinlifandi þegar kallið kom og það er draumi líkast að vera í hópnum. Markmiðið var alltaf að komast í landsliðið eins og hjá öllum öðrum. Eina sem maður gert gert er að reyna að æfa vel, spila vel og sjá hvað það leiðir af sér. En ég er hrikalega stoltur af þessu,“ sagði Samúel sem er 22 ára gamall og á að baki 3 A-landsleiki. 

Samúel lék einungis tvo leiki með Keflavík í Pepsí-deildinni árið 2013 áður en hann hélt út á vit ævintýranna hjá Reading. Hann leikur nú með Vålerenga í Noregi. Þar hefur hann spilað vel á miðjunni og vakti athygli landsliðsþjálfaranna.

„Í Noregi hef ég spilað á miðjunni og kann vel við mig þar en annars spilar maður þær stöður sem þjálfarinn vill nota mann í.“

Kjarninn í íslenska landsliðinu er af sömu kynslóð og hafa verið lengi saman í landsliðum. Hvernig var fyrir Samúel að koma sem nýliði inn í hópinn þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik? „Mér var tekið opnum örmum um leið og ég kom inn í hópinn. Strákarnir kunna þetta alveg og haf verið góðir við mig. Mér leið vel frá fyrstu stundu og þeir voru duglegir að setja mig inn í hlutina,“ sagði Samúel Kári í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert