Sá löppina hanga og forðaði mér

Eiður Aron teygir sig í boltann í kvöld.
Eiður Aron teygir sig í boltann í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það lá smá á okkur en við erum solid þegar við liggjum svona til baka og það koma háir boltar, við ráðum vel við þá,” sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, leikmaður Vals í samtali við mbl.is, rétt eftir að liðið vann góðan 1:0-sigur á ÍBV í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Eiður var heilt yfir nokkuð sáttur við spilamennsku Valsmanna. 

„Mér fannst við þokkalegir í fyrri hálfleik og vorum að spila vel og ná að opna þá aðeins í gegnum miðjuna og skapa 2-3 ágætisfæri á meðan við vorum sterkir í vörninni. Þetta var allt í lagi.”

Félagi Eiðs í vörn Valsmanna, Rasmus Christiansen, varð fyrir skelfilegum meiðslum í fyrri hálfleik er hann fótbrotnaði mjög illa. 

„Þetta var mjög óheppilegt að lenda í þessu. Það heyrðist smellur um allan völl, þetta var ekki fallegt. Löppin lét mjög illa út. Ég var tveimur metrum frá þar sem þetta gerist og ég sé löppina hanga á honum þá forðaði ég mér.

Maður reynir að halda áfram en það sáu þetta allir inni á vellinum. Þetta er hræðilegt atvik og það gerist eitthvað í hausnum á manni. Menn eru meðvitaðir um hvað var að gerast.”

Eiður er uppalinn Eyjamaður og var ánægður að spila á Hásteinsvelli. 

„Ég þekki alla hérna á vellinum og það er geggjað að fá að spila hérna. Svo er maður fá að heyra það hér og þar en þá hlær maður til baka,” sagði Eiður Aron hlæjandi að lokum.

mbl.is