„Erum drullu góðar í fótbolta“

Tinna Óðinsdóttir í baráttunni við Þóreyju Björk Eyþórsdóttur í leik ...
Tinna Óðinsdóttir í baráttunni við Þóreyju Björk Eyþórsdóttur í leik HK/Víkings og FH fyrr í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er hundfúlt að fá ekkert út úr þessum leik. Mér fannst við verjast mjög vel og þær voru ekki að skapa sér mikið. Það er sérstaklega skítt að fá á sig mark þarna undir restina en þetta féll ekki með okkur í dag,“ sagði Tinna Óðinsdóttir, fyrirliði HK/Víkings, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum búnar að vera skora í nánast hverjum einasta leik í sumar og við skorum í kvöld. Við vorum ákveðnar í að taka sigur á móti einu af stóru liðunum og við fáum eitt tækifæri í viðbót til þess. Markmiðið í sumar var að taka stig af minni liðunum og halda sæti sínu í deildinni og við erum á góðri leið. Leikjadagskráin okkar hefur verið erfið að undanförnu en það þýðir ekkert annað en að halda bara áfram.“

HK/Víkingur er í sjöunda sæti deildarinnar með 13 stig en liðinu var spáð falli af mörgum sérfræðingum fyrir mót. Tinna segir að gengi liðsins hafi ekki komið leikmönnum HK/Víkings á óvart.

„Við erum ekki að koma sjálfum okkur á óvart og við vitum alveg hvað við getum. Við erum drullu góðar í fótbolta og kannski var fólk bara ekki búið að kynna sér liðið nægilega vel í upphafi tímabilsins. Að sama skapi var fínt að vera spáð falli, það lyfti aðeins pressunni af okkur, en mér finnst við hafa sýnt fólki það í sumar að við kunnum ýmislegt fyrir okkur. Það er nóg eftir af þessu og við munum halda áfram að berjast fyrir sæti okkar í Pepsi-deildinni,“ sagði Tinna ennfremur í samtali við mbl.is

mbl.is