Ómetanlegt að spila með Jeppe

Stefán Teitur Þórðarson skoraði bæði mörk ÍA gegn Fram á ...
Stefán Teitur Þórðarson skoraði bæði mörk ÍA gegn Fram á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Sigurður Elvar Þórólfsson

„Það er mjög gaman að spila með Jeppe Hansen í framlínunni. Ómetanlegt fyrir mig að spila með svona reynslumiklum leikmanni. Jeppe er duglegur og er í því hlutverki sem ég var kannski í áður. Að fá boltann í fætur og byggja upp spilið. Núna er ég í aðeins frjálsara hlutverki og þetta hentar mér vel. Við náum vel saman og liðið er að skora mörk,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson, markaskorari ÍA, eftir 2-0 sigur liðsins gegn Fram í 13. umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Hinn tvítugi Skagamaður skoraði bæði mörk ÍA en hann hefur nú skorað alls 7 mörk í deildinni. „Ég skoraði tvívegis gegn Haukum en mörkin hafa ekki komið frá mér að undanförnu en þau komu í kvöld og það er gott fyrir liðið,“ bætti Stefán við. 

mbl.is