Á hverju veltur HM-draumurinn?

Sara Björk Gunnarsdóttir öskrar sínar konur áfram í leiknum við …
Sara Björk Gunnarsdóttir öskrar sínar konur áfram í leiknum við Þýskaland í dag. mbl.is/Eggert

Eftir tapið gegn Þýskalandi í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu í dag er ljóst að örlög íslenska liðsins skýrast ekki fyrr en í lokaumferðinni á þriðjudag. Ísland mætir þá Tékklandi á Laugardalsvelli kl. 15.

Ísland á nánast enga möguleika lengur á að ná 1. sæti í sínum riðli, 5. riðli, og komast þar með beint á HM. Möguleikinn felst í að ná 2. sæti og fara í gegnum umspil í október og nóvember, þar sem fjórar þjóðir keppa um síðasta lausa sæti Evrópu á HM. Ísland getur aðeins náð 1. sæti riðilsins ef Þýskaland tapar gegn Færeyjum, og það verður að teljast útilokað miðað við gengi liðanna í keppninni.

En hvað þarf Ísland að gera á þriðjudaginn? Tap gegn Tékklandi þýðir að HM-draumurinn er úti. Þá næði Tékkland 2. sæti riðilsins á betri innbyrðis úrslitum, en kæmist samt ekki í umspilið. Ísland myndi enda í 3. sæti. Ljóst er að Ísland þarf að minnsta kosti jafntefli til að halda 2. sætinu en ekki er víst að það dugi til umspils.

Í umspilið fara fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti, í undanriðlunum sjö. Íslandi dugar jafntefli gegn Tékklandi ef að Belgíu, sem er í 2. sæti sjötta riðils, tekst ekki að vinna topplið Ítalíu á heimavelli. Staðan í 1. og 7. riðli er nefnilega þannig að liðin í 2. sæti þar munu ekki ógna Íslandi. Möguleikinn er því ágætur á að jafntefli dugi til að fara í umspilið, en ekki öruggur.

Það er aftur á móti enn líklegra, afskaplega líklegt, að sigur á Tékklandi dugi til að fara í umspilið. Til að hann dugi ekki þarf allt að falla á móti Íslandi í fjórum riðlum. Belgía þarf þá að vinna Ítalíu með meiri mun en Ísland vinnur Tékkland, Danmörk og Svíþjóð að gera jafntefli í toppslag 4. riðils, Hollandi að mistakast að vinna Noreg í 3. riðli, og Skotland og Sviss að sleppa við töp gegn lakari andstæðingum í 2. riðli.

Eitt er hins vegar að komast í umspilið. Þar þarf að slá út firnasterkar þjóðir á borð við Danmörku eða Svíþjóð og Noreg eða Holland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert