Engin tilraunastarfssemi í Þjóðadeildinni

Vladimir Petkovic.
Vladimir Petkovic. AFP

Vladimir Petkovic, þjálfari Sviss, hafnaði því alfarið á blaðamannafundi í dag að Þjóðadeild UEFA gæti verið vettvangur fyrir tilraunastarfssemi fyrir landsliðsþjálfara. 

Fékk Petkovic spurningu á þeim nótum á blaðamannafundi í St. Gallen í dag en sagði að allir leikirnir í Þjóðadeildinni væru alvöru leikir. Ekki væri því neitt svigrúm fyrir tilraunastarfssemi, hvorki í leikskipulagi né varðandi lítt reynda leikmenn. Ungir leikmenn munu því ekki fá eldskírn sína með landsliðinu í þessari keppni. 

Petkovic var nokkuð brattur á fundinum. Sagðist vera mjög ánægður með æfingarnar í vikunni og vinnuframlag leikmanna. 

Tapið gegn Svíum í 16-liða úrslitum á HM situr greinilega nokkuð í Svisslendingum og Petkovic gerði ekki lítið úr því. Hann sagðist hafa gert mistök í þeim leik eins og aðrir en nú væri ágætt að byrja á nýju verkefni og nýrri keppni til að horfa fram á við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert