„Flóðgáttir opnuðust“

Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hljóðið í bakverðinum Ara Frey Skúlasyni var þungt eins og í öðrum landsliðsmönnum eftir skellinn í St. Gallen í dag þar sem Ísland tapaði 6:0 fyrir Sviss í fyrsta leik sínum í hinni nýju Þjóðadeild UEFA.  

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 2:0 fyrir Sviss en í síðari hálfleik komu fjögur mörk til viðbótar og Ari sagði að þau hefðu getað orðið fleiri.

„Flóðgáttir opnuðust. Ég veit ekki hversu mörg mörk þeir hefðu getað skorað en þetta er svo langt frá því að vera líkt okkur,“ sagði Ari þegar mbl.is spurði hann út í síðari hálfleikinn. 

„Þetta er alla vega versta tap sem ég hef upplifað í langan tíma. Við erum með nýjan þjálfara og að byrja þetta svona er skelfilegt.“

Ari hafði mikið að gera eins og aðrir varnarmenn Íslands en hvað í sóknarleik Sviss gerði það að verkum að íslenska liðið átti eins erfitt með að verjast og raun bar vitni? 

„Þeir þurftu stundum bara eina sendingu til að opna okkur og keyrðu á okkur þegar færi gafst. Sviss er með tekníska og fljóta menn en við vissum það nú alveg. Xhaka stjórnaði spilinu hjá þeim í fyrri hálfleik og við ræddum um í hálfleik að taka á honum. En auk þess sköpuðum við engin færi. Við þurfum að rýna í þennan leik til að sjá betur hvað fór úrskeiðis því það getur verið erfitt að sjá inni á vellinum,“ sagði Ari Freyr.  

mbl.is