Albert í hópi þeirra markahæstu

Albert með boltann í leiknum gegn Slóvökum í dag.
Albert með boltann í leiknum gegn Slóvökum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Albert Guðmundsson er í hópi markahæstu leikmanna í undankeppni EM U21 ára landsliða í knattspyrnu.

Albert skoraði bæði mörk Íslands í 3:2 tapi gegn Slóvökum á Alvogen-vellinum í dag og hefur þar með skorað 6 mörk í átta leikjum í undankeppninni.

Tveir leikmenn hafa skorað 8 mörk í undankeppninni, fjórir leikmenn hafa skorað 7 mörk og Albert ásamt fjórum öðrum leikmönnum hefur skorað 6 mörk.

Íslendingar eiga eftir að spila tvo leiki í undankeppninni, gegn Norður-Írum og Spánverjum og fara þeir báðir fram hér á landi.

Ísland er í 4. sæti riðilsins með 11 stig, N-Írar eru með 14 stig í þriðja sæti, Slóvakar í öðru sæti með 15 stig og Spánverjar eru með 21 stig í efsta sæti en þeir töpuðu sínum fyrstu stigum í kvöld þegar þeir lágu á heimavelli fyrir N-Írum 2:0.

mbl.is