Stjórn knattspyrnudeildar Fram hætt

Framarar sitja í 6. sæti Inkasso-deildarinnar.
Framarar sitja í 6. sæti Inkasso-deildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Karlalið Fram í knattspyrnu má muna fífil sinn fegurri. Liðið sem 18 sinnum hefur orðið Íslandsmeistari leikur nú í næstefstu deild og hefur gert það síðustu ár.

Fram er í dag í 6. sæti Inkasso-deildarinnar og siglir þar lygnan sjó þegar tvær umferðir eru eftir; er fyrir nokkru búið að missa af möguleikanum á að fara upp um deild og fjarri fallsvæðinu.

Á vef Fram í dag má sjá yfirlýsingu þess efnis að stjórn knattspyrnudeildar félagsins sé hætt. Núverandi stjórn hafi starfað í þrjú og hálft ár en á þeim tíma hafi kvarnast úr hópnum og þeir sem eftir sitji hafi ekki tíma eða aðstöðu til að sinna starfinu sem skyldi. Mun aðalstjórn Fram í framhaldinu skipa stjórn til að fara með málefni deildarinnar.

Yfirlýsing frá knattspyrnufélaginu Fram:

Stjórn knattspyrnudeildar hefur óskað eftir því að aðalstjórn félagsins taki við rekstri knattspyrnudeildar.
Að jafnaði er stjórnarkjör hjá knattspyrnudeildinni að vori, hins vegar eru mörg og mikilvæg verkefni unnin á næstu vikum og fram til áramóta sem stjórnin fráfarandi telur best að séu á forræði aðalstjórnar eða annarra sem aðalstjórn velur til verksins.

Það hefur reynst sífellt erfiðara að manna allt það sjálfboðaliðsstarf sem umfangsmikill rekstur eins og knattspyrnudeildin kallar á. Sú stjórn sem nú fer frá hefur starfað í 3,5 ár og á þeim tíma hefur kvarnast úr hópnum. Nú er svo komið að þeir sem eftir sitja hafa ekki lengur tíma eða aðstöðu til að sinna starfinu eins og þarf og því er brýnt að annað fólk komi að starfinu og haldi áfram að byggja upp deildina.

Aðalstjórn og starfsfólk Fram vilja þakka stjórnarmönnum knattspyrnudeildar fyrir gott starf í þágu félagsins.

Aðalstjórn mun því í framhaldi skipa stjórn sem fer með öll málefni deildarinnar.

Knattspyrnufélagið FRAM

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert