Pedersen orðinn markahæstur

Patrick Pedersen hefur verið Valsmönnum mikilvægur í sumar.
Patrick Pedersen hefur verið Valsmönnum mikilvægur í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Daninn Patrick Pedersen er orðinn markahæstur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að hann skoraði þrennu í 5:1 sigri Valsmanna á Eyjamönnum á Hlíðarenda síðdegis í dag.

Pedersen hefur gert níu mörk í síðustu sex leikjum Vals, og 16 mörk alls, og fór með þessu uppfyrir Hilmar Árna Halldórsson úr Stjörnunni sem hefur gert 15 mörk en á til góða leik Stjörnunnar gegn KA á miðvikudaginn.

Hilmar hefur ekki skorað í síðustu fimm leikjum en eftir 14 umferðir í deildinni var hann með 15 mörk en Pedersen með 7.

Þetta er önnur þrennan hjá Pedersen á þessum kafla en hann gerði einnig þrjú mörk í 4:0 sigri á Grindavík og síðan tvö mörk í 3:1 sigri á Breiðabliki í næsta leik á eftir.

Samtals hefur Pedersen nú skorað 46 mörk fyrir Val í 70 leikjum í efstu deild en hann er orðinn fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins í deildinni. Fyrir ofan hann eru Ingi Björn Albertsson með 109 mörk, Hermann Gunnarsson með 81 og Guðmundur Þorbjörnsson með 60 mörk.

Þá er Pálmi Rafn Pálmason úr KR orðinn þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar í ár eftir að hafa skorað tvö marka liðsins í 3:1 sigri á Keflavík í dag.

Sneggsta þrennan frá 1997

Enginn hefur verið jafnfljótur og Pedersen að skora mark í efstu deild karla á þessari öld en mörkin gerði hann á níu mínútna kafla í dag.

Áður hafði Andri Sigþórsson skorað þrjú mörk á 10 mínútum fyrir KR gegn Stjörnunni árið 2000 og Iddi Alkhag þrjú mörk á 10 mínútum fyrir HK gegn Val árið 2008.

Síðast náði leikmaður að skora þrennu á 9 mínútum í deildinni árið 1997 og þá áttu sömu félög í hlut. Tryggvi Guðmundsson gerði þá þrennu fyrir ÍBV í 3:0 sigri á Val og gerði mörkin á 80., 81. og 89. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert