Bjóst við að vera á bekknum í 22 leiki

Aron Elí Gíslason hefur spilað vel í sumar.
Aron Elí Gíslason hefur spilað vel í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Já, miðað við hvernig þetta þróaðist í seinni hálfleik. Þeir lágu á okkur og við erum sáttir við eitt stig á erfiðum útivelli. Við lögum upp með sigur, en það gekk ekki í dag,“ sagði Aron Elí Gíslason, markmaður KA, aðspurður hvort hann væri ánægður eftir 1:1-jafntefli við Stjörnuna á útivelli í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Aron var sáttur við spilamennsku KA í leiknum, sem og eigin frammistöðu, en hann varði nokkrum sinnum gríðarlega vel. 

„Spilamennskan í fyrri hálfleik var góð. Við duttum aðeins aftar í seinni hálfleik, sérstaklega eftir að við fáum markið á okkur. Það er skiljanlegt þar sem þeir þurftu sigur. Það var nóg að gera, ég er sáttur við mína frammistöðu í dag. Nú verðum við bara að halda áfram. Það eru tveir leikir eftir og við ætlum að klára þetta vel.“

KA er búið að gera jafntefli við efstu tvö liðin, Val og Stjörnuna, í síðustu tveimur leikjum. 

„Ef við spilum okkar leik þá erum við mjög góðir og við getum strítt öllum þessum liðum. Það er mjög gott starf hjá KA og við ætlum okkur í keppni við þessi topplið á næstu árum.“

Ekki er langt síðan Aron byrjaði að æfa mark, en nú er hann í U21 árs landsliðinu og í byrjunarliði í efstu deild. Það kemur honum sjálfum á óvart. 

„Ég bjóst ekki við neinu af þessu, ég bjóst við að vera á bekknum í 22 leiki. Svona getur þetta komið á óvart. Þú verður að standa þig þegar þú færð tækifæri og ég er búinn að gera það,“ sagði Aron Elí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert