„Ég vorkenni strákunum“

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, eftir 2:1-tapið gegn Sviss í kvöld.
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, eftir 2:1-tapið gegn Sviss í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon.

„Fyrstu 10 mínúturnar voru ekki alveg nógu góðar í fyrri hálfeik. Eftir það var hann góður. Þetta var jafn leikur en fyrsta markið er svo mikilvægt,” sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir 2:1-tapið gegn Sviss í þriðja leik liðsins í Þjóðadeild UEFA.

„Hefðum við skorað þegar Gylfi skaut og markvörðurinn varði virkilega vel þá veit maður aldrei hvað hefði gerst. En þeir skoruðu fyrsta markið. Við fengum svo færi til að jafna en í staðinn skoruðu þeir annað mark. Við áttum í smá erfiðleikum eftir það,” segir Hamrén á blaðamannafundi eftir leikinn.

Hamrén ítrekaði á fundinum gamla speki, að mörk breyta leikjum:

„Mörk veita liðum kraft og taka hann frá þeim. Við skoruðum frábært mark og fengum við það mikinn kraft. Það er erfitt að skapa fleiri færi en við gerðum á síðustu 10 mínútunum. Ég vorkenni strákunum því þeir settu svo mikla orku og vinnu í leikinn en fá samt svo lítið út úr honum. Auðvitað er ég vonsvikinn,” sagði Hamrén.

Spurður um fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik sagði Hamrén. „Það þarf að hrósa mótherjanum líka. Við byrjuðum fyrri hálfleikinn ekki heldur vel,” sagði Hamrén sem gerði gerði lítið úr áhyggjum úr sal um það hvort honum væri kalt á hliðarlínunni.

„Ég er frá Norður-Svíþjóð og er vanur kuldanum,“ sagði Hamrén. 

Súrt að skora ekki

Hamrén sagði á blaðamannafundinum að það kæmi ef til vill ekki mikið á óvart að Ísland væri í þriðja sæti í riðlinum í ljósi mótherjanna, Belgíu og Sviss. Það hafi verið raunhæft fyrirfram. „En við viljum ekki horfa raunsætt á hlutina. Við vildum auðvitað vera áfram í A-deildinni frá upphafi. En eins og ég sagði fyrir leikin þá var erfitt að forðast þá niðurstöðu að vera í síðasta sæti eftir 0:9 stöðu eftir fyrstu tvo leikina. En við vildum fá stig og vinna hérna í dag og ég hafði trú á því. Ef þið horfið á færin sem við fengum þá sér maður að við hefðum getað gert það. Hefðum við skorað úr þeim. En markvörðurinn þeirra var mjög góður því þetta voru ekki slæmar afgreiðslur. Þetta voru góðar markvörslur,” sagði Hamrén.

Spurður um hvað hefði mátt fara betur sagði Hamrén: 

„Mér fannst við ekki nægilega þéttir í leiknum. Í leiknum við Frakka vorum við það. En ég minni enn og aftur á að mörk breyta leikjum. Hefði Frakkland skorað fyrsta markið hefði sá leikur mögulega þróast eins og þessi leikur í kvöld. Mörk breyta leikjum. Ég þarf að sjá mörkin frá þeim betur í tölvunni en þau virtust vera fulleinföld. En ég get ekki sagt það núna hvað við gerðum rangt í dag. En auðvitað þurfum við að bæta margt en ég held að við höfum gert það ef við horfum á fyrsta leikinn [undir hans stjórn]. Við höfum breytt miklu.  Það jákvæða er að við sköpum svo mörg færi. Það er gott. Við sköpuðum meira en Belgía og Belgía vann leikinn gegn Sviss,“ sagði Hamrén.

Um góðan kafla íslenska liðsins undir lokin sagði Hamrén:

„Við höfum trúna að geta skorað. Þetta frábæra mark frá Alfreð veitti okkur mikla orku. En það tók líka orku frá andstæðingnum. Við tókum nokkur skref fram á við og þeir stíga til baka. Það var súrt að við skyldum ekki skora,” sagði Hamrén um góðan kafla íslenska liðsins undir lokin.

mbl.is