Létum þá líta mikið betur út en þeir eru

Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í dag. mbl.is/Hari

„Það er lítið hægt að segja. Þetta var bara ekki nægilega gott,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, sóknarmaður U21 árs landsliðs Íslands í fótbolta, eftir 7:2-tap fyrir Spánverjum í lokaleik liðsins í undankeppni EM.

Hann segir íslenska liðið hafa opnað sig of mikið eftir fyrsta mark Spánverja á 24. mínútu. 

„Það komu flottir kaflar í sókninni en við vorum mjög teygjanlegir og það myndaðist pláss fyrir aftan okkur of snemma í leiknum. Við hefðum átt að halda skipulaginu eftir fyrsta markið því það er alltaf séns í 1:0, en við opnuðum okkur of mikið og misstum hausinn.“

Jón Dagur segir spænska liðið ekki vera svona mikið betra en það íslenska. 

„Þeir eru fínir inn á milli en við létum þá líta mikið betur út en þeir eru. Við vissum að þeir myndu halda boltanum meira en við en við eigum að gera betur. Við vorum ekki nógu góðir taktískt og ekki nægilega harðir heldur. Við vorum að tapa tæklingum á meðan við ættum að vera að vinna aukaspyrnur, vinna tíma og koma þessu upp í æsing.“

Ísland endaði í fjórða sæti riðilsins og segir Jón Dagur ekki nægilega mikinn stöðugleika í íslenska liðinu. 

„Ástæðan fyrir að við vorum ekki nær er að það vantaði stöðugleika. Ef við ætlum að fara áfram eigum við ekki að tapa á móti Albaníu á heimavelli í fyrsta leik. Það er lið sem við eigum að taka þrjú stig á móti. Við settum okkur í of erfiða stöðu snemma, þrátt fyrir að vera fínir á köflum,“ sagði Jón Dagur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert