Vil sýna að ég eigi heima í þessum hópi

Arnór Sigurðsson í Brussel í morgun.
Arnór Sigurðsson í Brussel í morgun. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Það hafa heldur betur verið viðburðaríkir dagar upp á síðkastið hjá Arnóri Sigurðssyni, 19 ára gamla Skagamanninum, sem gekk í raðir rússneska úrvalsdeildarliðsins CSKA Moskva frá sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping í sumar.

Á skömmum tíma hefur hann skorað á móti Roma í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa komið inn á sem varamaður í sigri liðsins á móti ríkjandi Evrópumeisturum Real Madrid, skorað á móti toppliði Zenit Pétursborg og verið valinn í A-landsliðshópinn í fyrsta sinn fyrir leikina á móti Belgum í Þjóðadeild UEFA og gegn Katar en þjóðirnar mætast í vináttuleik í Belgíu.

Mbl.is hitti Arnór fyrir æfingu landsliðsins í Brussel í morgun en Arnór gæti spilað sinn fyrsta A-landsleik á fimmtudagskvöldið þegar Íslendingar mæta frábæru liði Belga í Þjóðadeildinni.

„Það er búið að ganga vel hjá mér með CSKA Moskva í Rússlandi og liðið er komið aftur á sigurbraut sem er kannski það mikilvægasta. Sigurinn á móti Zenit um síðustu helgi var rosalega mikilvægur fyrir okkur. Mér hefur tekist að skora í síðustu tveimur leikjum sem er mjög ánægjulegt en núna er ég með allan hugann við landsliðið,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is.

Búinn að fylgjast með þessu liði frá því ég var krakki

„Ég vil auðvitað sýna að ég eigi heima í þessum hópi. Það hefur auðvitað gefið mér mikið sjálfstraust að hafa skorað í þessum leikjum og ég held að ég átti mig betur á þessu þegar fram líða stundir. Maður hefur eiginlega ekki fengið neinn tíma til að hugsa um þetta. Ég tel mikilvægt fyrir mig að koma rétt stilltur inn í þetta verkefni með landsliðinu. Maður er búinn að fylgjast með þessu liði alveg síðan maður var krakki og maður veit hvers er ætlast til af manni. Mig hefur lengi dreymt um að komast í A-landsliðið og það er mikill heiður að hafa fengið kallið núna,“ sagði Arnór.

Arnór á landsliðsæfingu í Brussel í morgun.
Arnór á landsliðsæfingu í Brussel í morgun. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Nú er mikið um forföll í landsliðinu núna. Gerir þú þér vonir um að fá að spila á móti Belgunum?

„Ég mun bara taka það hlutverk sem ég fæ. Þrátt fyrir að það sé mikið um forföll þá eigum við marga frábæra leikmenn og gamla klisjan, það kemur maður í manns stað. Við vitum hversu erfiður leikurinn á móti Belgum verður. Belgarnir eru með heimsklassalið sem er skipað 22 frábærum leikmönnum. Við verðum án mikilvægra leikmanna en þá opnast bara dyrnar fyrir aðra og það er þeirra sem fá tækifæri að nýta það,“ sagði Arnór.

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð þína. Reiknar þú með að spila í Rússlandi næstu árin eða lítur þú á Rússland sem ákveðinn stökkpall?

„Mér líður mjög vel í Rússlandi en auðvitað stefni ég hærra. Maður vill alltaf ná lengra og við verðum bara að sjá til. Eins og staðan er núna er ég mjög sáttur í Rússlandi, landið hefur komið mér skemmtilega á óvart og ég mun halda áfram að reyna að standa mig eins vel og hægt er. Það er bara mikilvægast að njóta þess að spila fótbolta á svona háu stigi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert