Leiðinlegt að hanga ekki á núllinu

Belginn Michy Batshuayi, Kári Árnason og Hannes Þór Halldórsson markvörður …
Belginn Michy Batshuayi, Kári Árnason og Hannes Þór Halldórsson markvörður í hasarnum í Brussel í kvöld. AFP

Kári Árnason sagði í samtali við mbl.is í kvöld að landsliðið gæti tekið margt gott með sér frá leiknum við Belga í kvöld þrátt fyrir tapið. Liðið væri að venjast breyttum varnarleik og hann hefði að mörgu leyti heppnast vel, þrátt fyrir tveggja marka tap, 2:0, í Brussel í lokaleik Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu.

„Okkur tókst svo gott sem að koma í veg fyrir að Belgar fengu marktækifæri í leiknum. Þeir skoruðu mörk sín upp þeim einu færum sem þeir fengu í síðari hálfleik. En þrátt fyrir að margt hafi verið gott þá þarf ýmislegt að laga, atriði sem eiga ekki að koma fyrir,“ sagði Kári sem sagðist kunna vel við að leika það leikkerfi sem Erik Hamrén landsliðsþjálfari væri að innleiða.  „Á löngum ferli hef ég sjaldan leikið í þriggja manna vörn en það hentar mér mjög vel.  Sverrir [Ingi Ingason] er vanari að leika þetta kerfi en ég. Við töluðum vel saman og mér fannst Belgarnir ekki skapa sér mikið af færum gegn okkur.  Þess vegna var leiðinlegt að ná ekki að hanga á núllinu,“ sagði Kári.

Alfreð Finnbogason meiddist í upphitun í kvöld og bættist þar með á langan lista yfir meidda landsliðsmenn. Kári sagði það hafa verið slæmar fréttir að fá rétt áður en flautað var til leiks. Menn hafi hins vegar ekki látið þær slá sig út af laginu. „Arnór Ingvi Traustason kom með skömmum fyrirvara inn í liðið og stóð sig vel eins og aðrir leikmenn í kvöld. Menn voru voru duglegir og lögðu sig alla fram,“ sagði Kári Árnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, eftir tapleikinn í Brussel í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert