Eins og að vera valin í fyrsta skipti

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og fram kom á mbl.is fyrir stundu er Margrét Lára Viðarsdóttir komin að nýju í íslenska landsliðið í knattspyrnu og fer með því á Algarve mótið í Portúgal síðar í þessum mánuði.

Margrét Lára lék síðast með landsliðinu í apríl 2017 þegar það steinlá fyrir Hollendingum í vináttuleik 4:0 og nokkru síðar varð hún fyrir því óláni að slíta krossband í hné. Margrét varð ólétt á vetrarmánuðum 2017 og átti sitt annað barn í fyrra og spilaði þar að leiðandi ekkert á síðustu leiktíð.

Hún er hins vegar komin á fulla ferð á nýjan leik og er byrjuð að raða inn mörkunum en Margrét Lára er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi, hefur 77 mörk í 117 leikjum. Hún er þriðji leikjahæsti leikmaður landsliðsins á eftir Katrínu Jónsdóttur sem lék 133 leiki og Sara Björk Gunnarsdóttir hefur spilað 120 leiki.

„Ég er hrikalega stolt að vera komin aftur í landsliðið og er þakklát fyrir þetta tækifæri. Það eru miklar tilfinningar sem bærast í brjósti mínu og mér líður eins og hafa verið valinn í landsliðið í fyrsta skipti,“ sagði Margrét Lára í samtali við mbl.is þegar hún var spurð út í endurkomuna.

Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með Val.
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Síðasti leikurinn sem ég spilað með landsliðinu fyrir tæpum tveimur árum var ekki mikið til að hrópa húrra fyrir þar sem við vorum rassskelltar af Hollendingum. Eftir að ég sleit krossbandið er þetta búið að vera langt og strangt ferli. Ég kem reynslunni ríkari til baka og er sterkari og betri einstaklingur og vonandi get ég gefið landsliðinu áfram eitthvað. Það er stefnan og ég ætla mér að gera það,“ sagði Margrét Lára.

Hef fengið ótrúlegan stuðning frá Val

Varst þú á einhverjum tímapunkti búin að afskrifa endurkomu í landsliðið?

„Satt best að segja nei. Ég man þegar ég sleit krossbandið þá hugsaði ég málið í tvo daga hvað ég ætti að gera og hvort þetta væri búið hjá mér. Ég fann fyrir gríðarlega miklum stuðningi og maður fer ekki út svona dæmi nema með miklum stuðningi frá eiginmannsins, barna, foreldra og allra í kringum mann því þetta er svakalegur pakki og mikil vinna.

Við ákváðum í sameiningu að ég myndi koma mér upp á lappirnar og gera allt sem í mínu valdi stæði til að geta spilað aftur og á þessu stigi. Án þess að opinbera það þá var það alltaf stefnan hjá mér koma til baka og fá að loka mínum fótboltaferli sjálf. Ég vona að ég fái að gera það einn daginn þótt sé ekki alveg komin þangað,“ sagði Margrét Lára.

„Það er búið að ganga vel hjá mér núna á undirbúningstímabilinu. Ég hef fengið ótrúlegan stuðning frá Val. Það hefur stutt mig í gegnum þetta ferli og veðjað á mig. Ég verð félaginu ævinlega þakklát og þá hafa Pétur þjálfari og allt þetta fólk á Hlíðarenda hjálpað mér mikið. Ég vona að ég geti borgað þetta til baka og að Valur geti náð að vinna titla á komandi árum. Liðsfélagar mínir í Val eiga það inni hjá mér,“ sagði Margét Lára, sem verður 33 ára gömul í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert