Hannes genginn í raðir Vals

Hannes Þór Halldórsson og þjálfarinn Ólafur Jóhannesson handsala samninginn á …
Hannes Þór Halldórsson og þjálfarinn Ólafur Jóhannesson handsala samninginn á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Hari

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, skrifaði nú rétt í þessu undir samning við Íslandsmeistara Vals og snýr þar með heim eftir sex ár í atvinnumennsku. Hann semur á Hlíðarenda út tímabilið 2022 og mun einnig koma að þjálfun markvarða í yngri flokkum félagsins.

Hannes var síðast á mála hjá liði Qarabag í Aserbaídsjan, en í síðustu viku var tilkynnt að hann væri laus allra mála frá félaginu. Hann kom þangað síðasta sumar og gerði samning til ársins 2020, en áður hafði hann leikið með Randers í Noregi, Sandnes Ulf og Bodø/Glimt í Noregi og NEC í Hollandi.

Hannes er uppalinn hjá Leikni R. en spilaði einnig um tíma með Aftureldingu og Stjörnunni áður en hann gekk til liðs við Fram árið 2007. Hann fór þaðan til KR árið 2011 og varð tvívegis Íslands- og bikarmeistari með liðinu áður en hann hélt í atvinnumennsku eftir tímabilið 2013.

Hannes hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins síðustu ár og á að baki 59 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann er áttundi leikmaðurinn sem Valsmenn fá til sín fyrir tímabilið og sá fimmti sem kemur frá erlendu liði.

Fyrir voru þeir Emil Lyng, Gary Martin, Lasse Petry og Orri Sigurður Ómarsson komnir til félagsins að utan og þeir Birnir Snær Ingason, Garðar B. Gunnlaugsson og Kaj Leo i Bartalsstovu frá liðum hér heima.

Valur hefur titilvörn sína í Pepsi Max-deildinni föstudagskvöldið 26. apríl þegar Víkingar koma í heimsókn á Hlíðarenda.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert