Þróttur með fullt hús stiga á toppnum

Þróttur fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Þróttur fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Eggert

Þróttur R. er með fullt hús stiga á toppi 1. deildar kvenna í fótbolta eftir 4:2-sigur á Tindastóli í Laugardalnum í kvöld þegar heil umferð, sú þriðja, fór fram.

Þróttur er einn í efsta sæti en FH er með 7 stig eftir 2:0-heimasigur á Fjölni. Augnablik er í 3. sæti með 6 stig þrátt fyrir 1:0-tap á heimavelli gegn Haukum þar sem sigurmarkið kom rétt fyrir leikslok. ÍA er með 5 stig eftir markalaust jafntefli við Grindavík sem er með 4 stig. ÍR er enn án stiga eftir 5:2-tap gegn Aftureldingu sem er með 4 stig.

Þróttur og Tindastóll mættust í hörkuleik þar sem Linda Líf Boama og Rakel Sunna Hjartardóttir komu Þrótti í tvígang yfir en Murielle Tiernan jafnaði í bæði skiptin fyrir gestina frá Sauðárkróki. Lauren Wade skoraði þriðja mark Þróttar á 63. mínútu og Andrea Rut Bjarnadóttir bætti við því fjórða skömmu síðar. 

Margrét Sif Magnúsdóttir og Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoruðu mörk FH í sigrinum á Fjölni sem er með 1 stig í næstneðsta sæti. 

ÍR komst í 1:0 í leik sínum við Aftureldingu í Mosfellsbæ, með marki Sigrúnar Drafnar Auðunsdóttur, en þrátt fyrir að Hafrún Rakel Halldórsdóttir klúðraði víti fyrir Aftureldingu þá dugði það mark skammt. Hafrún jafnaði nefnilega metin á 36. mínútu og þær Sigrún Gunndís Harðardóttir og Samira Suleman bættu við mörkum fyrir hálfleik. Suleman skoraði svo úr víti snemma í seinni hálfleik og Eydís Embla Lúðvíksdóttir bætti við fimmta markinu. Sigrún Erla Lárusdóttir minnkaði muninn fyrir ÍR undir lokin.

mbl.is/Eggert
mbl.is