„Leikjaálagið bitnar á gæðunum“

Ólafur Kristjánsson þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson þjálfari FH.

„Þetta var sanngjarnt. Ég fæ ekkert fleiri stig fyrir að segjast hafa verið eitthvað betri í leiknum. Mér fannst Fylkismennirnir koma grimmir inn í leikinn og gerðu gott mark með því að koma boltanum upp í hornið. Við svörum en náum aldrei flugi í leiknum,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir 2:2 jafntefli við Fylki í kvöld.

„En að lokum fannst mér bæði lið vanta kraftinn og yfirvegunina til að klára þetta. Þetta var mjög slitið í restina og það er greinilegt að leikjaálagið er farið að bitna á gæðunum.“

„Leikuirnn var opinn í restina, púlsinn var kominn upp. Pétur (Viðarsson) fær frábært færi eftir horn og Jákup fær gott færi. Það er súrt að missa þessi tvö stig sem voru í boði en við verðum bara að halda áfram og við eigum mjög erfiðan bikarleik gegn Skagamönnum á fimmtudaginn,“ sagði Ólafur.

Atli Guðnason kom inná völlinn í fyrri hálfleik fyrir Þóri Jóhann og fór svo aftur út af í síðari hálfleik. Ólafur segir Þóri hafa fengið högg á hendina og Atli fékk högg á kálfann og þurfti að yfirgefa völlinn. Þá fór Guðmann einnig meiddur af velli í leiknum. „Það voru þrjár þvingaðar skiptingar í dag og þar spilar leikjaálagið inní. Það lítur vel út á Excel-skjali að spila svona marga leiki en þetta fer að bitna á gæðunum,“ bætir Ólafur við og útskýrir:

„Þú þarft 72 tíma til að endurheimta þig eftir leik og ef við skoðum leikjaplanið í maímánuði þá er önnur bikarumferð í næstu viku og við erum að spila 9 leiki á svona stuttum tíma. Það er erfitt að bjóða mönnum upp á það, án þess að ég sé að nota það sem afsökun fyrir jafnteflinu í dag.“

mbl.is