„Ég lét hann aðeins heyra það“

Guðjón Pétur Lýðsson í skallaeinvígi gegn HK.
Guðjón Pétur Lýðsson í skallaeinvígi gegn HK. mbl.is/Hari

Guðjón Pétur Lýðsson skoraði sitt fyrsta mark síðan hann sneri aftur til Breiðabliks í 3:1-sigri liðsins á HK í grannaslag í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, í kvöld. Hann var skiljanlega sáttur við sigurinn þegar mbl.is tók hann tali í leikslok.

„Aðalatriðið er bara að vinna og komast áfram í bikarleikjum. En auðvitað er sætt að vinna HK, líka eftir lélega frammistöðu gegn þeim í deildinni,“ sagði Guðjón Pétur, en liðin gerðu 2:2 jafntefli í deildinni fyrr í mánuðinum þar sem Blikar skoruðu tvö mörk undir lokin. Sú frammistaða sat í þeim fyrir leikinn í kvöld.

„Algjörlega. Planið var að spila nærri því eins og við spiluðum síðustu fimm mínúturnar í þeim leik. Mér fannst þetta mjög heil og góð frammistaða hjá okkur núna, við vorum mjög þéttir og góðir. Frá fyrstu mínútu fannst mér við vera með öll tök á leiknum og stjórna honum. Við kláruðum hann líka mjög fagmannlega,“ sagði Guðjón Pétur.

Upp kom stórfurðulegt atvik rétt fyrir hálfleik þegar nánast allir leikmenn voru í vítateig HK, en Guðjón Pétur tók aukaspyrnu inn á teiginn. Boltinn var hreinsaður frá, beint á Guðmund Böðvar Guðjónsson sem var aftastur hjá Blikum. Hann ætlaði að senda strax fram í teig, en þrumaði í andlitið á Guðjóni Pétri, sem steinlá eftir. Hann fékk aðhlynningu og virtist vægast sagt ósáttur við liðsfélaga sinn.

„Ég lét hann aðeins heyra það. Þetta var klaufalegt, hann var með allan völlinn fyrir sig en ákvað að hamra honum í smettið á mér. Ég vankaðist aðeins en jafnaði mig og kláraði leikinn. Ég náði áttum í hálfleik og kom tvíefldur til leiks í seinni hálfleik,“ sagði Guðjón Pétur.

Hann sagðist ekki vera með draumamótherja í átta liða úrslitunum. „Það væri gott að fá heimaleik, en annars mætum við hverjum sem er og vinnum þá sem við þurfum,“ sagði Guðjón Pétur.

Hann segir markmiðin skýr í Kópavoginum, en Blikarnir fengu silfurverðlaun um hálsinn í fyrra. „Markmiðið er að gera betur en í fyrra og það þýðir bara eitt,“ sagði Guðjón Pétur Lýðsson við mbl.is.

mbl.is