Smá drama og titringur

Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska landsliðsins, var að vonum sáttur …
Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska landsliðsins, var að vonum sáttur með sigur liðsins gegn Tyrklandi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er hrikalega glaður og þetta var fyrst og fremst æðislegur sigur,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við lokuðum á allt sem þeir voru að reyna að gera. Það er búinn að vera langur aðdragandi að þessum leik og smá drama og titringur í kringum þetta allt saman. Það hefur aðeins verið lagst á okkur á okkar samfélagsmiðlum og við erum búnir að fá mikið af hótunum og ljótum skilaboðum. Við vorum þess vegna gríðarlega ákveðnir í að mæta klárir í dag og taka þetta verkefni og loka því. Það vantaði ekkert upp á hvatninguna fyrir leikinn. Við þurftum þrjú stig en þessi skilaboð gáfu okkur kannski auka blóð á tennurnar.“

Hannes segir að sigrarnir tveir gegn Albaníu og Tyrklandi gefi liðinu mikið upp á framhaldið að gera.

„Við þurftum á þessum sex stigum að halda og þau gefa okkur mjög mikið. Það er gríðarlega sætt að klára þessi sumarverkefni á sex stigum og þau gefa okkur mikinn kraft upp á framhaldið að gera. Þetta gerist ekki mikið betra, að heyra víkingaklappið eftir sigurleiki, og núna er bara að halda áfram á sömu braut,“ sagði Hannes Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is