Gamla góða Ísland er mætt aftur

Víkingaklappið var að sjálfögðu tekið eftir sigurinn gegn Tyrkjum í …
Víkingaklappið var að sjálfögðu tekið eftir sigurinn gegn Tyrkjum í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gamla góða Ísland er mætt aftur til leiks. Eftir brösótt gengi á síðasta ári, hundleiðinlega og slaka frammistöðu í Þjóðadeildinni og í kjölfarið vondan skell á móti heimsmeisturum Frakka erum við farin að kannast við strákana okkar og sjá þá spila í líkingu við það sem þeir sýndu okkur í síðustu tveimur undankeppnum.

Ísland vann sanngjarnan 2:1 sigur gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum í gærkvöld og eftir fjórar umferðir í riðlinum eru Íslendingar jafnir Tyrkjum og heimsmeisturum Frakka með níu stig og ljóst að baráttan um tvö efstu sætin og þar með farseðil í úrslitakeppni EM á næsta ári stendur á milli þessara þriggja liða.

Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson skorar ekki á hverjum degi fyrir íslenska landsliðið en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði bæði mörk Íslands með skalla í fyrri hálfleik eftir föst leikatriði og kappinn var ekki langt frá því að fullkoma þrennuna í seinni hálfleik þegar kollspyrna hans fór fram hjá markinu í góðu færi. Ragnar hefur þar með skorað fimm mörk fyrir íslenska landsliðið, einu marki minna en hinn frábæri miðvörðurinn í liðinu, Kári Árnason. Fyrri hálfleikurinn að hálfu íslenska liðsins var hreint út sagt magnaður og nánast fullkominn en það eina sem skyggði á glæsilega frammistöðu í fyrri hálfleik var mark Tyrkjanna sem leit dagsins ljós á 40. mínútu eftir hornspyrnu. Fram að því höfðu Íslendingar haft Tyrkina í algjörri spennitreyju, stjórnað leiknum og sýnt bestu takta í háa herrans tíð.

Síðari hálfleikurinn var í járnum. Íslenska liðið varðist vel og náði af og til ágætum skyndisóknum þó án þess að skapa sér nein dauðafæri. Tyrkir náðu nokkurri pressu síðasta stundarfjórðung leiksins en íslenska vörnin og Hannes Þór Halldórsson fyrir aftan hana stóðu vaktina vel sem og allir íslensku leikmennirnir og þegar pólski dómarinn flautaði til leiksloka í blíðunni í Laugardalnum ætlaði allt um koll að keyra.

Sjá alla umfjöllunina um leik Íslands og Tyrklands á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »