Dagný og Hlín tryggðu Íslandi sigur

Byrjunarlið Íslands í fyrri leiknum gegn Finnum í Turku.
Byrjunarlið Íslands í fyrri leiknum gegn Finnum í Turku. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann 2:0-sigur gegn Finnlandi í vináttuleik á Leppävaaran Stadion í Espoo í Finnlandi í dag. Það voru þær Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í leiknum en þau komu bæði í fyrri hálfleik. Þetta var annar leikur liðanna á fimm dögum en fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli í Turku.

Finnar byrjuðu leikinn betur og Linda Sällström fékk gott færi strax á 3. mínútu þegar hún slapp ein í gegn en skot hennar fór yfir markið. Íslenska liðið átti nokkrar góðar álitlegar skyndisóknir eftir þetta og var oft og tíðum við það að sleppa í gegn en alltaf klikkaði síðasta sendingin á síðasta þriðjungi vallarins. Finnar fengu tvö ágætisfæri til þess að komast yfir með stuttu millibili eftir tíu mínútna leik en tókst ekki að hitta markið og staðan áfram markalaus. Hlín Eiríksdóttir kom Íslandi svo yfir með frábæru marki á 21. mínútu þegar hún lét vaða með viðstöðulausu skoti fyrir utan teig af 25 metra færi og boltinn söng í samskeytunum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk sannkallað dauðafæri til þess að tvöfalda forystu íslenska liðsins, sex mínútum síðar, en fyrsta snertingin sveik hana illilega og boltinn endaði í höndum Tinji-Riikka Korpela, markmanns Finna. Á 32. mínútu átti Glódís Perla Viggósdóttir frábæra sendingu úr vörn íslenska liðsins. Boltinn sveif yfir allra varnarmenn Finna á Dagnýju Brynjarsdóttur sem kassaði boltann snyrtilega niður, lagði hann fyrir sig, og skoraði af öryggi af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 2:0, Íslandi í vil.

Linda Sällström komst í algjört dauðafæri á 42. mínútu þegar hún fékk háa sendingu inn í teiginn eftir hornspyrnu Finna en hún hitti boltann illa og lyfti honum yfir markið. Hlín Eiríksdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir áttu báðar ágætismarktækifæri undir lok fyrri hálfleiks sem enduðu bæði í höndunum á Korpela í marki Finna og staðan því 2:0 í hálfleik, Íslandi í vil. Finnar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Linda Sällström fékk dauðafæri til þess að minnka muninn á 47. mínútu en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði meistaralega frá henni af stuttu færi. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir fékk fínt færi til þess að skora þriðja mark Íslands en skot hennar af stuttu færi úr teignum var laust og markmaður Finna varði örugglega.

Finnar voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks en á 77. mínútu fékk Karólína Lea Vilhjálmsdóttir dauðafæri til þess að skora þriðja mark leiksins en skot hennar var lélegt og fór beint á Korpela sem hélt boltanum. Þremur mínútum síðar fór Heidi Kollanen afar illa með Glódísi Perlu Viggósdóttur í vítateig íslenska liðsins en skot hennar fór í stöngina og út.  Leikurinn fjaraði hægt og rólega út eftir þetta, Finnar reyndu að sækja á meðan íslenska liðið lá til baka og reyndi að beita skyndisóknum en hvorugu liðinu tókst að bæta við og Ísland fagnaði sigri.

Finnland 0:2 Ísland opna loka
90. mín. Uppbótartíminn fimm mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert